Síðastliðinn þriðjudag fengum við Borgfirðingar góða heimsókn, en þeir félagar í Kraków-tríóinu komu og héldu tónleika í Borgarneskirkju á vegum Tónlistarfélags Borgarfjarðar. Tríóið samanstendur af þeim Wieslaw Kwasny fiðluleikara, Julian Tryczynski sellóleikara og Jacek Tosik-Warszawiak píanóleikara. Jacek er okkur Borgfirðingum að góðu kunnur, en hann kenndi við Tónlistarskóla Borgarfjarðar um 10 ára skeið. Jacek var einnig með píanó-masterklassa í Tónlistarskóla Borgarfjarðar á dögunum þar sem nemendur og kennarar tóku þátt og fylgdust með kennslu.
Tónleikar þeirra félaga voru í alla staði stórkostlegir, þeir fluttu tríó eftir Beethoven, Brahms og Panufnik. Þetta er tónlistarmenn á heimsmælikvarða og voru þeir sem sóttu tónleikana sammála um að það hafi verið einstök upplilfun að hlusta á þá. Tónlistarfélagið á þakkir skyldar fyrir að gefa okkur tækifæri á að fá að njóta slíkrar tónlistar.
TÞ