Borgarbyggð hefur ráðið Ásthildi Magnúsdóttur rekstrarfræðing sem forstöðumann fræðslu- og menningarsviðs Borgarbyggðar frá 1. september n.k. Alls bárust tíu umsóknir um stöðuna.
Ásthildur er fædd árið 1966. Hún lauk prófi í rekstrarfræðum frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst í vor, kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1993 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1986. Ásthildur hefur starfað sem kennari í sex ár í Borgarnesi og á Seltjarnarnesi og við veitingarekstur á árunum 1986 – 1991. Samhliða námi hefur Ásthildur starfað við prófarkalestur, textagerð og þýðingar, auk þess að hafa umsjón með bóksölu nemenda á Bifröst.
Staða forstöðumanns fræðslu- og menningarsviðs er ný hjá sveitarfélaginu. Forstöðumaður hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á fræðslumálum, æskulýðs- og íþróttamálum og menningarmálum hjá Borgarbyggð. Hann ber ábyrgð á rekstrarlegum markmiðum og forsendum þeirra stofnana sem undir hann heyra og leitar leiða í samráði við einstaka yfirmenn þeirra um að ná fram hagkvæmni og veita um leið góða þjónustu. Forstöðumaður fer með verkefni sveitarfélagsins í menningarmálum, er tengiliður við menningarstofnanir og hefur umsjón með framkvæmd samstarfssamninga.
Borgarbyggð býður Ásthildi velkomna til starfa.