Snorrastofa og Skessuhorn taka saman höndum á 14. afmælisdegi Skessuhorns, laugardaginn 18. febrúar næstkomandi og efna til opins málþings um fjölmiðla á landsbyggðinni, hlutverk þeirra og stöðu. Málþingið verður haldið í Hátíðarsal Héraðsskólans í Reykholti kl. 14.00-17.00. Það verður borið uppi af fyrirlesurum, sem hafa innsýn og reynslu af fjölmiðlum og málefnum þeirra og hafa látið þau mál til sín taka. Í lok fyrirlestra verða pallborðsumræður og fyrirspurnir.
Erindi flytja:
Birgir Guðmundsson, dósent og deildarformaður félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri : Staðbundin fjölmiðlun – lýðræði og lífsgæði; Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri og stjórnarformaður Byggðastofnunar: „Þú ert með einhvern svona derring“ Útvarp Reykjavík og almannarými landsbyggðanna; Áslaug Karen Jóhannsdóttir blaðamaður: Fjölmiðlar og unga fólkið; Jón Jónsson þjóðfræðingur, Kirkjubóli á Ströndum: Svæðismiðlar, sjálfsmynd og ímynd; Ragnar Karlsson deildarstjóri Mennta- og menningarmáladeildar Hagstofu Íslands og stundakennari við HA og HÍ: Fjölmiðlun utan Ártúnsbrekku: Staða fjölmiðla á landsbyggðinni; Gísli Einarsson fréttamaður RÚV: . „Hljóð úr horni eða hljóð í horni?“
Birgir Guðmundsson, dósent og deildarformaður félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri : Staðbundin fjölmiðlun – lýðræði og lífsgæði; Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri og stjórnarformaður Byggðastofnunar: „Þú ert með einhvern svona derring“ Útvarp Reykjavík og almannarými landsbyggðanna; Áslaug Karen Jóhannsdóttir blaðamaður: Fjölmiðlar og unga fólkið; Jón Jónsson þjóðfræðingur, Kirkjubóli á Ströndum: Svæðismiðlar, sjálfsmynd og ímynd; Ragnar Karlsson deildarstjóri Mennta- og menningarmáladeildar Hagstofu Íslands og stundakennari við HA og HÍ: Fjölmiðlun utan Ártúnsbrekku: Staða fjölmiðla á landsbyggðinni; Gísli Einarsson fréttamaður RÚV: . „Hljóð úr horni eða hljóð í horni?“
Dagskrárstjóri verður Magnús Magnússon, ritstjóri Skessuhorns.
Það fer vel á að halda uppá afmæli Skessuhorns með því að fjalla um hlutverk og stöðu fjölmiðla á landsbyggðinni. Rekstur og framganga fjölmiðla á landinu öllu er eitt af stærstu hagsmunamálum þeirra sem þar búa og hlýtur að teljast til þess, sem skiptir miklu máli í sjálfsmynd þjóðarinnar allrar.
Leiðin að kastljósi fjölmiðlanna hefur löngum reynst löng og bugðótt þeim, sem vilja koma hugðarefnum sínum á framfæri. Þeir, sem reynt hafa að komast að hjá stærri fjölmiðlum, sem teljast þjóna öllu landinu og hafa jafnvel lagabundna skyldu til þess, reka sig oftar en ekki á að fátt er um undirtektir. Þó eru fjölmiðlarnir fullir af efni. Af þessu leiðir að sjálfstraustið dvínar og virðing fyrir viðfangsefnunum minnkar.
Hlutverk fjölmiðla er sannarlega flókið fyrirbæri og málþinginu er í sjálfu sér ekki ætlað að útskýra það, heldur fremur að ítreka nauðsyn þess að landsbyggðin sitji við sama borð og þeir, sem í þéttbýlinu búa og varpi ljósi á þau tæki, sem notuð eru til að svo megi verða. Það hlýtur að teljast ávinningur samfélagsins alls að fækka þeim tilvikum þar sem íbúum finnst að mynd fjölmiðlanna sé ekki sú, sem auga og eyra greinir í þeirra nánasta umhverfi. Skessuhorn og Snorrastofa hvetja alla til að koma og taka þátt í áhugaverðri og vekjandi dagskrá. Aðgangur kr. 1000 með kaffiveitingum.