Fjölmennur íbúafundur í Hjálmakletti

nóvember 22, 2013
Fjölmenni var í gærkvöldi á íbúafundi um málefni háskólanna í Borgarbyggð. Ljóst er að íbúar hafa miklar áhyggjar af því hvert stefni varðandi skólana, en starfsemi þeirra hefur verið helsti vaxtabroddurinn í sveitarfélaginu undanfarin ár. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði fundinn og tók þátt í umræðum.
Í lok fundarins var samþykkt ályktun sem sjá má hér fyrir neðan:
 
Íbúafundur haldinn í mennta- og menningarhúsinu Hjálmakletti í Borgarnesi fimmtudaginn 21 nóvember 2013 skorar á ríkisstjórn Íslands og mennta- og menningarmálaráðherra að standa vörð um starfsemi Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands og leita allra leiða til að efla starfsemi þeirra frekar.
Það er ljóst að sá niðurskurður í fjárveitingum til starfsemi skólanna sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 mun leiða til samdráttar í starfi þeirra. Fundurinn leggur þunga áherslu á að skólunum verð tryggt fjármagn til þess að þeir geti staðið undir hlutverkum sínum.
Landbúnaðarháskóli Íslands varð til árið 2005 við sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rala á Keldnaholti og Garðyrkjuskólans á Reykjum. Íbúafundurinn leggur áherslu á að stjórnvöld heimili skólanum að ljúka þeirri sameiningu og tryggi þannig rekstrargrundvöll skólans til framtíðar.
Fundurinn varar eindregið við þeim hugmyndum að sameina háskóla á landsbyggðinni háskólum á höfuðborgarsvæðinu og auka þannig miðstýringu háskólanáms hér á landi. Tryggja þarf rekstrargrundvöll og sjálfstæði Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Íbúafundurinn ítrekar mikilvægi þess að stjórnvöld hafi samráð við sveitarstjórn Borgarbyggðar og atvinnuvegina þegar kemur að því að taka ákvörðun um starfsemi háskólanna í héraðinu enda hefur sveitarfélagið lagt mikið af mörkum til uppbyggingar á þjónustu fyrir nemendur skólanna.
Háskólarnir í Borgarbyggð hafa undanfarin áratug verið einn helsti vaxtabroddurinn í þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað í Borgarbyggð og á Vesturlandi öllu. Öflug starfsemi skólanna skapar sóknarfæri fyrir allt Vesturland, því skiptir afar miklu máli að stjórnvöld standi vörð um starfsemi þeirra og tryggi þeim fjármagn til að þess að þeir geti sinnt sínu hlutverki.

Share: