Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árin 2017- 2020.

nóvember 15, 2016
Featured image for “Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árin 2017- 2020.”

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2017 ásamt þriggja ára áætlun 2018 – 2020 var tekin til fyrri umræðu í sveitarstjórn fimmtudaginn 10. nóvember. Ljúka ber síðari umræðu fyrir 15. desember nk en sveitarstjórn fundar næst þann 8. desember. Í framlagðri fjarhagsáætlun er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur verði 131 m.kr. fyrir A og B hluta sveitarsjóðs. Ekki er gert ráð fyrir lántöku á næsta ári og þess má geta að heimild í fjárhagsáætlun yfirstandandi árs til lántöku var ekki nýtt frekar en árið 2015. Skuldir hafa því farið lækkandi og er áætlað að skuldahlutfall verði 125,8% árið 2017. Staða sveitarsjóðs hefur vænkast verulega á undanförnum árum og uppfyllir Borgarbyggð nú ríflega lágmarksviðmið Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga um skuldaviðmið og rekstrarjöfnuð.

Lykilatriði fjárhagsáætlunar 2017

  • Rekstarafkoma A og B hluta samkvæmt fyrirliggjandi áætlun er jákvæð um 131 millj. kr.
  • Veltufé frá rekstri í A-hluta er 10,7% af heildartekjum. Til samanburðar var það 8,5% á árinu 2015. Veltufé frá rekstri verður um 350 m.kr. hjá A-hluta og um 390 m.kr. hjá A+B hluta.
  • Veltufjárhlutfall (hlutfall lausafjármuna og lausaskulda) verður 1,18 hjá A-hluta og 1,2 hjá A+B hluta. Samsvarandi tölur voru 0,83 og 0,90 á árinu 2015.
  • Skatttekjur hækka um 213 millj. kr. á milli áranna 2016 og 2017 og nema 2.993 millj. kr. sem er 7% hækkun miðað við útkomuspá fyrir árið 2016.
  • Heildartekjur verða 3.278 m.kr. en voru 3.270 m.kr. á árinu 2016 skv. útkomuspá. Heildarútgjöld eru áætluð 3.060 m.kr. en voru 2.952 m.kr. á árinu 2016 skv. útkomuspá.
  • Útsvarstekjur nema 1.592 millj. kr. og hækka um 7% miðað við útkomuspá fyrir árið 2016.
  • Áætlað er að fasteignaskattur nemi um 450 millj. kr. sem er 2% hækkun frá 2016. Fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði munu lækka frá fyrra ári því álagningarprósenta verður lækkuð úr 0,49 í 0,47.
  • Áætlað er að framlög Jöfnunarsjóðs  nemi 891 millj. kr. sem er 10% hækkun frá áætlaðri útkomu 2016.
  • Engar lántökur eru áætlaðar á árinu 2017.
  • Á árinu 2017 er ráðgert að framkvæma fyrir 275 m.kr.. Bættur rekstrarafkoma og eignasala gerir að verkum að ekki verður þörf á lántöku.

Áhersluverkefni 2017

  • Frístundakort verður tekið upp í Borgarbyggð á árinu 2017 í fyrsta sinn. Framlag fyrir hvert barn á aldrinum 6-18 ára verður samtals 20.000 á ári. Markmið framlagsins er að hvetja til þess að öll börn og ungmenni taki þátt í frístundastarfi í Borgarbyggð, óháð efnahag.
  • Viðbygging við Grunnskólann í Borgarnesi sem inniheldur fjölnota matsal. Stefnt er að því að vinna hefjist á vormánuðum 2017. Heildarkostnaður við viðbyggingu er áætlaður um 300 milljónir og kostnaður við viðhald á eldra skólahúsnæði er áætlaður um 200 milljónir sem myndu dreifast á 3 ár.
  • Flutningur leikskólans Hnoðrabóls á Kleppjárnsreyki er fyrirhugaður á árinu 2017. Áætlaður kostnaður við standsetningu húsnæðis er 80 milljónir. Til stendur að selja núverandi húsnæði leikskólans og parhús á Kleppjárnsreykjum til að mæta kostnaði sveitarfélagsins við flutning leikskólans.
  • Malbikun Kveldúlfsgötu og endurnýjun gangstétta verður framkvæmd á vormánuðum 2017 og kostar sú framkvæmd um 60 milljónir.
  • Borgarbyggð hefur hafið vinnu við frumhönnun og kostnaðarmat vegna lagningu ljósleiðara um dreifbýli sveitarfélagsins. Sveitarfélagið áætlar að leggja 8 milljónir kr. til verkefnisins á árinu 2017.
  • Borgarbyggð stefnir að því að verða heilsueflandi samfélag í samvinnu við Landlæknisembættið. Áhersla verður lögð á að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun og á öllum sviðum. Unnið verður að verkefninu á næstu árum í samvinnu við stýrihóp.

Share: