Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar 2005

janúar 10, 2005
Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2005 samþykkt í bæjarstjórn
Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2005 gerir ráð fyrir að heildartekjur bæjarsjóðs og fyrirtækja sveitarfélagsins verði 1.069 milljónir, en þar af eru skatttekjur rúmar 831 milljónir eða tæp 78% af tekjum. Þá er gert ráð fyrir að rekstrargjöld verði 951 milljón, afskriftir 57 milljónir og fjármagnskostnaður verði 68 milljónir. Afgangur frá rekstri fyrir afskriftir og fjármagnsliði er því 118 milljónir. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er áætlað að afgangur verði á rekstri bæjarsjóðs, en hins vegar er rekstrarhalla á fráveitu og félagslegum íbúðum sem gerir að áætlað er rúmlega 7 milljóna tap á rekstri samstæðunnar. Veltufé frá rekstri er 89 milljónir sem eru 8.3% af heildartekjum.
Skatttekjur sveitarfélagsins hækka á milli ára um tæp 11% miðað við útkomuspá fyrir árið 2004. Álagning útsvars er óbreytt, álagningarprósenta á fasteignaskatt íbúðarhúsnæðis er óbreytt en álagningarprósenta fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði og lóðarleigu hækka lítillega. Þjónustugjöld vegna fráveitu og sorphirðu hækka um ríflega 10% og þá hækka önnur þjónustugjöld um 3 til 5%.
Stærstum hluta rekstrarútgjalda, eða 503 milljónum er varið til fræðslu- og uppeldismála. Aðrir málaflokkar sem taka hvað mest til sín í rekstri eru æskulýðs- og íþróttamál 108 milljónir, sameiginlegur kostnaður 90 milljónir, félagsþjónusta 56 milljónir og umhverfis- samgöngu- og skipulagsmál 36 milljónir.
Á árinu 2005 er gert ráð fyrir að fjárfest og framkvæmt verði fyrir alls 116 milljónir. Helstu framkvæmdir eru við byggingu húsnæðis undir hluta af starfsemi Landnámsseturs að upphæð 25 milljónir, en gert er ráð fyrir að setrið opni á næsta ári í gamla Pakkhúsinu við Brákarbraut í Borgarnesi. Breytingar á nýju húsnæði bæjarskrifstofu muni sömuleiðis kosta 25 milljónir. Áætlað er að gatnagerð við Digranesgötu, Kvíaholt, Brákarbraut og Granastaði sem og frágangur á bílastæðum við Óðal og Klettaborg muni kosta 43 milljónir. Aðrar nýframkvæmdir verði við sundlaug á Varmalandi, við fráveitu í Borgarnesi, leitarmannaskála og fjárfest verði í byggingarlandi í Borgarnesi.
Gert er ráð fyrir að ný lántaka á árinu 2004 verði alls 121 milljón og að afborganir eldri lána verði rúmar 130 milljónir. Því er áætlað að skuldir sveitarfélagsins munu lækka á árinu 2005 og stefnir í að skuldir sveitarfélagsins lækki á árunum 2004 og 2005 um 22 þúsund á íbúa, þannig að heildarskuldir á íbúa verði 460 þúsund í árslok 2005 sem er töluvert undir landsmeðaltali. Áætlað er að lífeyrisskuldbindingar hækki á árinu um rúmar 18 milljónir og verða því skuldbindingar á íbúa 101 þúsund í árslok 2005.
Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2005 gerir ráð fyrir aðhaldi í rekstri sem er nauðsynlegt til þess að áfram megi halda uppi háu þjónustustigi í sveitarfélaginu. En áætlunin endurspeglar líka bjartsýni á framtíð byggðarlagsins þar sem ráðist er í framkvæmdir og fjárfestingar sem eru forsenda fyrir íbúafjölgun.
 
 

Share: