Félagsmiðstöðin Hosiló, Varmalandi

desember 1, 2006
Miðvikudaginn 29. nóv. s.l. var stór dagur fyrir unglinga í Varmalandsskóla en þá var opnuð félagsmiðstöð í anddyri félagsheimilisins Þinghamars.
Haldin var glæsileg opnunarhátíð og fékk félagsmiðstöðin nafnið Hosiló í samkeppni sem haldin var um nafnið á unglingastiginu. Nafnið merkir stað eða herbergi sem sem notalegt er að dvelja í og á því vel við. Á annað hundrað manns mættu á hátíðina sem tókst í alla staði afar vel.
Eftir að Indriði Jósafatsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi hafði farið nokkur orðum um aðdraganda að stofnun félagsmiðstöðvar í Varmalandi flutti formaður tómstundanefndar og forseti sveitarstjórnar Björn Bjarki Þorsteinsson ávarp og afhenti nemendaráði húsnæðið formlega til afnota. Sparisjóður Mýrasýslu færði félagsmiðstöðinni billjardborð að gjöf og Nemendafélag Grunnskóla Borgarness færði félagsmiðstöðinni flatskjá en mikið og gott samstarf er á milli nemendafélaganna.
Þórunn Óðinsdóttir skólastjóri Varmalandsskóla flutti jákvæða ræðu og vænti mikils af þessari viðbót við félagsstarfið á svæðinu um leið og hún afhenti unglingum gjöf frá skólanum.

Unglingar og foreldrar þeirra fjölmenntu og fögnuðu því að unglingarnir væru komnir með aðstöðu sem tengir saman félagsstarf, íþróttastarf ungmennafélagsins og eykur væntanlega virkni nemendafélags skólans sem stjórnar nú innra starfi félagsmiðstöðvarinnar.
Fulltrúar byggðaráðs, menningamálanefndar, tómstundanefndar og bæjarstjóri mættu á hátíðina og fram kom í ræðu Bjarka að þarna væri að rætast mikilvægur liður í að auka þjónustu í dreifbýli sveitarfélagsins.

Að formlegri opnun lokinni voru nemendur með kaffisölu til að safna fjármagni til tækjakaupa fyrir félagsmiðstöðina. Verður að segjast að opnunarhátíðin hafi farið fram úr björtustu vonum og eru nemendur Varmalandsskóla himinlifandi með félagsmiðstöðina Hosiló. Það er nú í þeirra höndum að virða þá aðstöðu sem þeir hafa til umráða og þeirra að halda uppi og skipuleggja þar kröftugt tómstundastarf næstu misserin.
Starfsmaður í hlutastarfi í félagsmiðstöðinni er Andrea Davíðsdóttir.
Félagsmiðstöðin verður opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 15.oo – 17.oo og einnig verður kvöldopnun eitt kvöld í viku í Gauknum Bifröst ef þátttaka verður næg.
 
Unglingar í Varmalandsskóla
Til hamingju.
i.j.
 
 

Share: