Fegurri sveitir

júlí 10, 2001

Verkefnið “Fegurri sveitir” heldur áfram í sumar eins og lesendur hafa vonandi orðið varir við. Það er Landbúnaðarráðuneytið, ásamt fjölmörgum sveitarfélögum og félagasamtökum sem standa að verkefninu. Um er að ræða átaksverkefni um hreinsun á landi og fegrun mannvirkja með áherslu á sveitir landsins. Tilgangur þess er að koma í veg fyrir mengun og slysahættu, auk þess að bæta ásýnd dreifbýlisins. Í stjórn verkefnisins sitja fulltrúar frá Landbúnaðarráðuneytinu, Umhverfisráðuneytinu, Bændasamtökum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kvenfélagasambandi Íslands. Líkt og í fyrra er gefinn út bæklingur um verkefnið sem kynnir það frekar.

Borgarbyggð er þátttakandi í “Fegurri sveitum” eins og s.l. sumar. Stærsti einstaki þátturinn í framlagi sveitarfélagsins er brotajárnssöfnun sem stendur yfir í sumar. Staðið er að söfnun á brotajárni með svipuðu sniði og í fyrra en móttökustöðum hefur verið fjölgað. Sumarið 2000 tóku menn vel við sér og söfnuðust á þriðja hundrað tonn í því átaki. Upplýsingum um núverandi söfnun hefur verið dreift inn á öll heimili í dreifbýlinu en einnig fást upplýsingar á bæjarskrifstofunni í síma 437-1224. Tengiliður Borgarbyggðar við verkefnið er Sigurjón Jóhannsson þjónustufulltrúi.
Eins og fram kemur í bæklingnum er Ragnhildur Sigurðardóttir á Álftavatni verkefnisstjóri “Fegurri sveita”. Ragnhildur hefur heimsótt flestar sveitir landsins í tengslum við þetta verkefni og verður á ferðinni í Borgarbyggð nú síðla sumars. Hún mun fara um og heimsækja bændur og búalið, fara yfir verkefnið og svara spurningum. Ekki er hægt að hafa þessar heimsóknir fyrirfram skipulagðar, þ.e. koma verður í ljós hvort menn verða heima þegar hún verður á ferðinni. Ef menn vilja afþakka heimsókn Ragnhildar eru viðkomandi beðnir um að gera það með því að hafa samband við Sigurjón Jóhannsson í síma 437-1787 eða við skrifstofu Borgarbyggðar.
Borgarbyggð hefur ákveðið að efna til umhverfisátaks í Borgarnesi í seinni hluta ágústmánaðar. Ekki er síður ástæða til að huga að fegrun umhverfisins í Borgarnesi, einu fallegasta bæjarstæði landsins. Með átakinu er einkum verið að höfða til fyrirtækja og stofnana um að þau gefi sér tíma til að fegra og bæta umhverfi sitt. Tilnefna á umsjónarnefnd, með fulltrúum frjálsra félagasamtaka, sem geri m.a. tillögur um viðurkenningar fyrir góða frammistöðu í átakinu. Ragnhildur Sigurðardóttir verður Borgarbyggð til ráðgjafar í þessu verkefni.
Með óskum um ánægjulegt sumar.
10. júlí 2001
Bæjarstjóri

Minnt er á að Gámastöð Borgarbyggðar á Sólbakka er opin mánudaga til laugardaga frá kl. 12:30 til 19:30
Hugum sérstaklega að spilliefnum í sveitinni. Komum spilliefnum, svo sem rafgeymum, málningu og notaðri olíu, á Gámastöðina svo tryggja megi örugga förgun


Share: