Fagnað í Skallagrímsgarði

janúar 2, 2007
Þáttaskil verða í neysluvatnsmálum í Borgarfirði næstkomandi föstudag þegar Grábrókarveita, ný vatnsveita Orkuveitu Reykjavíkur í Borgarfirði, verður formlega tekin í notkun. Hátíð í tilefni þessa verður haldin í Skallagrímsgarði í Borgarnesi ef veðurguðirnir samþykkja þá tilhögun. Ef ekki þá verður athöfnin færð inn í íþróttahúsið í Borgarnesi. Hátíðin hefst kl. 17:00 með stuttum ávörpum. Þá stígur Snorri Hjálmarsson tenór ásamt Páli á Húsafelli á stokk með steinhörpuna, Bjarni töframaður galdrar og galdrar og unglingakór flytur nokkur lög. Þá flytur Gísli Einarsson vatnshugvekju og síðast en ekki síst kemur stórsveitin Á Móti Sól með Magna Ásgeirsson í broddi fylkingar og skemmtir í Skallagrímsgarðinum. Hátíðinni lýkur með flugeldasýningu undir stjórn Björgunarsveitarinnar Brákar á íþróttavallarsvæðinu.
Meðan dagskrá verður á sviði munu skátar úr Borgarnesi, sem eru á leið á alheimsmót skáta næsta sumar, sjá um að skenkja gestum í Skallagrímsgarði heitt kakó og kleinur í boði OR, einnig munu „klakaskurðarmeistarar“ vera að störfum meðan dagskrá varir.
Borgfirðingum öllum er boðið til hátíðarinnar og gestir eru jafnframt minntir á að klæða sig í samræmi við veður.
Þegar Orkuveitan eignaðist vatnsveiturnar í Borgarnesi og á Bifröst var það áskilið við kaupin að fyrirtækið réðist í endurbætur á vatnsöflun fyrir héraðið, sem þegar voru áform um. Víða í byggðum Borgarfjarðar var þá úrbóta þörf hvað varðar magn neysluvatns og gæði þess. Vænlegast þótti að leita fanga í Grábrókarhrauni og við tilraunaboranir þar á árinu 2004 fundust prýðileg vatnsból í grennd við Bifröst.
Nú er lokið lögn nýrrar vatnsæðar allt frá Bifröst í Borgarnes og er hún ríflega 30 kílómetra löng. Á leiðinni eru nokkrar stórar sumarhúsabyggðir auk bújarða og gefst þeim kostur á að tengjast nýju lögninni. Talsverður skortur hefur verið á góðu neysluvatni í nokkrum þessara byggða og munu byggðirnar í Munaðarnesi og Stóru Skógum t.a.m. njóta vatns úr Grábrókarveitunni.
Lagning vatnsleiðslunnar hefur staðið frá árinu 2004 en leitast var við að fella framkvæmdir við lögn hennar saman við vegagerð. Lögnin liggur meðfram þjóðvegi 1 um Borgarfjörð en síðustu misseri hafa endurbætur staðið yfir á hringveginum á hluta milli Borgarness og Bifrastar. VST í Borgarnesi hannaði nýju veituna en verktakafyrirtæki heimamanna, Borgarverk og Sólfell, sáu að mestu um verklegar framkvæmdir.
 

Share: