Endurskoðuð fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2011

október 25, 2011
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti tillögu að endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir sveitarfélagið á fundi sínum 18. október s.l. Við endurskoðun voru gerðar breytingar á tekjuliðum, rekstarliðum, fjármagnsliðum og nýframkvæmdum. Á heildina litið er gert ráð fyrir betri rekstarniðurstöðu en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir vegna jákvæðra breytinga á fjármagnsliðum, en veltufé frá rekstri er hins vegar nokkru lægra en upphaflega var áætlað.
 
Samkvæmt endurskoðari áætlun verður rekstarniðurstaða jákvæð um 43,6 milljónir. Tekjur hækka um 41 milljón, en rekstarkostnaður hækkar um 75 milljónir. Helstu skýringar á hækkun rekstarkostnaðar eru annars vegar vegna nýrra kjarsamninga og hins vegar vegna ákvarðana sveitarstjórnar um aukna þjónustu í fræðslumálum og aukið viðhald fasteigna og veitna. Þrátt fyrir erfið ytri skilyrði, hækkun verðbólgu og óhagstæða gengisþróun þá er niðurstaða fjármagnsliða mun hagstæðara en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir og skýrist það af höfuðstólslækkun á láni sem var í erlendri mynt.
Veltufé frá rekstri verður um 40 milljónum lægra en áætlað var eða 167,5 milljónir. Þetta þýðir að veltufé verður 7.5% af tekjum. Dregið hefur verulega úr nýframkvæmdum sem fjármagnaðar eru af sveitarsjóði, en lántaka sveitarsjóðsins á árinu eru aðeins 47 milljónir en afborganir lána verða tæpar 220 milljónir. Hins vegar hafa staðið yfir fjárfrekar framkvæmdir við byggingu nýrrar hjúkrunarálmu við Dvalarheimili aldraðra sem Borgarbyggð fjármagnar en ríkið endurgreiðir 85% af byggingarkostnaði með langtíma leigusamningi. Kostnaður við framkvæmdir við hjúkrunarálmuna verða tæpar 600 milljónir árið 2011. Fjárfestingar við hjúkrunarálmu falla ekki undir sveitarsjóð, en um hjúkrunarálmuna er stofnað sérstakt B-hluta fyrirtæki í samræmi við reiknisskila sveitarfélaga enda er framkvæmdin og rekstur að langa stærstum hluta kostuð af ríkinu þegar allt kemur til alls.
 

Share: