Þau eru falleg gömlu útihúsin við Hlíðartún í Borgarnesi og hafa vakið athygli margra. Þau eru orðin 100 ára og hafa verið í endurbyggingu á vegum Borgarbyggðar síðan á níræðisafmæli sínu árið 2009. Þetta eru hlaðin útihús uppi við kletta nálægt aðalgötu bæjarins, merkar minjar um búskap í þéttbýli á fyrstu áratugum 20. aldar. Borgarbyggð er eigandi húsanna og hefur s.l. 11 ár unnið að endurbyggingunni með aðstoð Minjastofnunar.
Ýmsir fagaðilar hafa komið að endurgerðinni gegnum árin og má þar nefna Unnstein Elíasson, Stefán Ólafsson, Jóhannes Stefánsson og Hannes Heiðarsson. Umsjónarmaður frá upphafi er Kristján Finnur Kristjánsson umsjónarmaður fasteigna sveitarfélagsins og Safnahús Borgarfjarðar hefur haldið utan um umsóknarferli og skýrslugerð. Vonast er til að endurgerð húsanna ljúki á þessu ári.
Saga húsanna
Það var Sigurður Guðmundsson (f. í Galtarholti 1892, d. 1971) sem byggði húsin 1919, en hann hafði flust í Borgarnes 1918 ásamt konu sinni Bjarnlaugu Helgadóttur (1880-1947). Sigurður hlóð allar hleðslur sjálfur og dró til þess grjót úr fjörunni og nánasta umhverfi á hestvagni. Hrefna Sigurlaug Sigurðardóttir (1919-2007) dóttir hans bjó síðar í Hlíðartúni ásamt manni sínum Daníel Gunnars Jónssyni (1924-2000).
Útihús og skepnuhald var sterkt einkenni byggðar í Borgarnesi á fyrstu áratugum 20. aldar og voru þau mjög víða í plássinu allt fram á 8. áratuginn. Þar hafði fólk kýr, kindur og hesta.