Yfirlýsing frá Borgarbyggð vegna rakaskemmda í Ráðhúsi

janúar 25, 2021
Featured image for “Yfirlýsing frá Borgarbyggð vegna rakaskemmda í Ráðhúsi”

Í lok síðasta árs skilaði verkfræðistofan EFLA skýrslu vegna úttektar á neðstu hæð Ráðhússins með það að markmiði að meta núverandi ástand á ytra byrði hússins og kanna innvist, þar á meðal athuga hvort rakavandamál væru til staðar. Niðurstaða úttektar gaf til kynna að rakaskemmdir er að finna í húsnæðinu og því nauðsynlegt að bregðast við. Á 549. fundi byggðarráðs var erindið tekið fyrir og ákveðið að hefja endurbætur á Ráðhúsinu þegar í stað.

Framkvæmdir hófust í síðustu viku og í ljós kom að rakaskemmdirnar eru umfangsmeiri en upphaflega var talið og því ljóst að endurbæturnar koma til með að taka lengri tíma en áætlað var í fyrstu. Byggðarráð tók málið til umfjöllunar á 550. fundi þann 21. janúar s.l. þar sem ákveðið var að fela sveitarstjóra að finna tímabundið húsnæði fyrir hluta eða alla starfsemi Ráðhússins.

Einungis var gerð úttekt á afmörkuðu svæði Ráðhússins sem hefur verið afgirt á meðan unnið er að frekari úrbótum. Starfsstöðvar starfsmanna í nálægð við umrætt svæði voru færðar, öryggi og heilsa starfsmanna hefur og verður ávallt í fyrirrúmi. Það er mat sérfræðinga að einungis þurfi að flytja hluta af starfseminni úr Ráðhúsinu og þá er einungis um að ræða starfsstöðvar sem eru í nálægð við framkvæmdarsvæðið.

Á þessum tímapunkti máls liggja ekki fyrir framtíðaráform Ráðhússins. Brýnt er að klára að gera heildarúttekt á öllu húsnæðinu áður en ákvörðun er tekin um framtíðarstaðsetningu þess. Engin áform eru um að rífa húsið, heldur er fullnægjandi að fara í endurbætur á húsinu. Byggðarráð ákvað á fundi sínum 21. janúar s.l. að ljúka við úttekt og í framhaldinu skoða viðeigandi aðgerðir í kjölfarið. Ekki hefur verið ákveðið hvert hluti af starfseminni flyst á meðan unnið er að endurbótum.


Share: