Draumur hestamanna verður að veruleika

maí 5, 2007
Ljósmynd: Ragnheiður Stefánsdóttir
Nú hyllir í að reiðhöll rísi við Vindás og verður þar langþráður draumur hestamanna og fleiri að veruleika. Á fundi sínum þann 3. maí sl lýsti sveitarstjórnar Borgarbyggðar stuðningi sínum við framlagðar tillögur stjórnar Reiðhallarinnar ehf. Tillagan felur í sér reiðhöll (27x60m) með áhorfendarými fyrir 300-350 manns, ásamt áföstu rými sem rúmar hesthús, biðrými og geymslu. Áætlaður kostnaður er um 105 milljónir að meðtöldum gatnagerðargjöldum.
 
Næstu skref eru að byggingarnefndarteikningar verða teknar til afgreiðslu á næsta fundi skipulags – og byggingarnefndar, væntanlega eftir tvær vikur. Fái þær samþykki þar er ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir. Jarðvegsframkvæmdir ættu því að geta hafist í byrjun júní, eða um leið og aðili hefur verið ráðinn til þess verks.
Hugmyndavinna hófst árið 2003 og markar afgreiðsla sveitarstjórnar nú því ákveðin og ánægjuleg þáttaskil í verkefninu. Með samþykkt sveitarstjórnar kemst málið af umræðustigi yfir á framkvæmdastig. Hlutafélagið sem stofnað hefur verið um byggingu reiðhallarinnar er í eigu Borgarbyggðar, hestamannafélaganna Skugga og Faxa og Hrossaræktarsambands Vesturlands.

Share: