Dagvistunarmál rædd í ungmennahúsinu Mími í Borgarnesi

janúar 29, 2008
Mömmumorgnar í Mími ungmennahúsi ganga vel og er ágæt mæting í starfið sem er á miðvikudagsmorgnum frá kl. 10.30 – 12.00. Allar mæður ungbarna í sveitarfélaginu eru velkomnar.
Það var síðastliðið haust sem hugmynd kviknaði að þessum morgnum í ungmennahúsinu. það á vel við að halda þá í því húsi sem margar mæðurnar hafa á undanförnum árum sótt félagsstarf í.
Mæðurnar hafa sjálfar skipulagt starfið í vetur og séð um að fá fyrirlesara, í samvinnu við ungbarnaeftirlit Heilsugæslunnar, til að fjalla um ýmis málefni sem eru þeim hugleikin og vilja kynna sér, eins og ungbarnanudd, brjóstagjöf ofl.
Nýlega var t.d. fjallað um dagvistunarmál og stöðu þeirra þar sem sveitarstjórnarfulltrúar og forstöðumenn dagvistunarmála hjá sveitarfélaginu komu og ræddu málin varðandi dagvistun ungbarna. Þarna var upplýsingum miðlað um hvað betur má fara í málefnum ungra foreldra á jákvæðum fundi sem um 30 manns sóttu.
Það er mikilvægt að skapa ungu fólki aðstöðu eins og í ungmennahúsinu Mími til að hittast og ræða málin, koma málum á framfæri og mynda samheldni íbúa. Að ógleymdu því hversu skemmtilegt er að fara yfir sameiginleg áhugamál í uppeldinu er ekki verra að þarna fer fram skipulögð fræðsla og fundir um hin ýmsu mál sem snerta forvarnir og uppeldi.
 
Myndina tók Indriði Jósafatsson af hluta fundarmanna.

Share: