Dagur íslenskrar tungu í Safnahúsi Borgarfjarðar

nóvember 11, 2008
Dagur íslenskrar tungu er haldinn 16. nóvember ár hvert. Í tilefni dagsins verður þann 14. nóvember næstkomandi opnuð í Safnahúsi Borgarfjarðar ljóðasýning nemenda fimmtu bekkja í grunnskólunum úr nágrenninu. Þetta er í fjórða sinn sem Safnahús fer þess á leit við kennara fimmtu bekkja að þeir leggi nemendum sínum fyrir það verkefni að yrkja ljóð og jafnvel myndskreyta það. Afraksturinn verður svo til sýnis í sal listasafns Safnahússins fram að jólum. Á opnuninni gefst þátttakendum og fjölskyldum þeirra tækifæri að skoða verk sín, farið verður í leiki og boðið uppá veitingar. Til að gera leikjadagskrána sem besta úr garði, hafa verið kallaðar til sérstakar leik-konur Safnahúss, systurnar Gréta Sigríður og Elín Elísabet Einarsdætur sem starfað hafa í Safnahúsi að sumri til við afleysingar og sýningarvörslu.
Við sama tækifæri verður skáldkonunnar Júlíönu Jónsdóttir minnst en í ár eru liðin 170 ár frá fæðingu hennar. Júlíana var fædd á bænum Búrfelli í Hálsasveit en ólst að mestu upp á Rauðsgili í sömu sveit fram að fermingaraldri. Hún bjó víða eftir það, meðal annars í Akureyjum og í Stykkishólmi þar sem frumflutt var leikrit hennar ,,Víg Kjartans Ólafssonar” en Júlíana lék þar hlutverk Guðrúnar Ósvífursdóttur. Í bókmenntasögunni er Júlíana þó þekktari fyrir ljóðabók sína ,,Stúlku” sem út kom 1876 en sú bók er fyrsta ljóðabók eftir konu á Íslandi. Júlíana hvarf af landi brott til Vesturheims í kringum 1885 og dvaldi þar til æviloka en hún lést árið 1917 eða 1918 en heimildir greinir á um það. Skömmu fyrir andlátið leit seinni ljóðabók hennar dagsins ljós og bar hún heitið ,,Hagalagðar”.
Það er Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður sem hefur umsjón með dagskránni, sem hefst kl. 16:30 og eru allir hjartanlega velkomnir.
 
Fyrri myndin er tekin af Elínu Elísabetu Einarsdóttur á ljóðasýningunni árið 2007.
Síðari myndin er af Júlíönu Jónsdóttur og er í eigu Héraðsskjalasafns Borgarfjarðar.

Share: