Dagbók sveitarstjóra – 9. & 10.vika

mars 11, 2022
Featured image for “Dagbók sveitarstjóra – 9. & 10.vika”

Vikurnar fljúga áfram og nú styttist brátt í vorboðann ljúfa. Líkt og oft áður er margt um að vera í sveitarfélaginu okkar. Stríðið er okkur örugglega ofarlega í huga margra, en samstaða er meðal Íslendinga um að leggja okkar að mörkum til að veita Úkraínu og flóttafólki aðstoð. Flóttafólk er komið til landsins og við ætlum að gera allt sem við getum til að taka vel á móti þeim. Fjölmenningarsetrið hefur sett á heimasíðu sína eyðublað fyrir þá sem vilja bjóða fram íbúðarhúsnæði fyrir flóttafólk frá Úkraínu og hvet ég alla sem geta boðið upp á húsnæði að skrá það hjá þeim. Við hjá Borgarbyggð höfum líst yfir því við stjórnvöld að við höfum áhuga á að leggja flóttafólki lið og hef ég í samráði við sveitarstjórnarfulltrúa verið í samskiptum við stjórnvöld varðandi aðkomu sveitarfélagsins að móttöku fólksins.

Hugheimar

Ég sat minn fyrsta stjórnarfund í Hugheimum í síðustu viku og var hann mjög fræðandi og áhugaverður. Það voru kynntar framsæknar hugmyndir Menntaskóla Borgarfjarðar og nýstofnað Nýsköpunarnet Vesturlands. Auk þess fengu stjórnarmenn kynningu á starfi Nýsköpunarsetri háskólanna en það stendur til að formlega stofna setrið í mars. Enn fremur eru Hugheimar að skoða lausnir til að skapa aðstöðu fyrir þá aðila sem eru í nýsköpun og þróun.

Hringvegur 1 í gegnum Borgarnes

Búið er að halda fyrsta fund verkefnastjórnar vegna Hringvegar 1 í gegnum Borgarnes. Allir aðilar eru sammála um að eiga gott samtal við vinnslu verkefnisins og meðal annars kom upp sú hugmynd af starfsmaður Borgarbyggðar sæti þessa fundi framvegis sem tengiliður sveitarfélagsins. Vinnunni verður þannig háttað að nokkrar leiðir verða metnar og síðan gerð samanburðargreining. Um er að ræða spennandi verkefni sem verður gaman að fylgjast með.

Pokar að láni

Búið er að endurvekja verkefnið Egla tekur til hendinni en um er að ræða átak til að vekja athygli á skaðsemi plasts. Í samstarfi við Ölduna voru saumaðir fjölnota sem liggja nú frammi í Hyrnutorgi og er öllum íbúum velkomið að fá lánaða poka til afnota við innkaup sín á Hyrnutorgi.

Undirritun samninga

Penninn er á hendi þessa dagana sem er mjög ánægjulegt enda mörg spennandi verkefni í gangi. Nýlega var undirritaður samstarfssamningur við Reykholtshátíðina, sem hefur fest sig í sessi undanfarin ár og það er ánægjulegt að geta stutt við bakið á þessari rótgrónu hátíð.

Sveitarstjórn hefur samþykkt samstarfssamning við Kvikmyndafjelag Borgarfjarðar. Félagið hefur streymt fundi sveitarstjórnar og aðra fundi sveitarfélagsins með prýði og þökkum við þeim kærlega fyrir það framlag og metnað sem þeir leggja í hverja útsendingu. Það er nauðsynlegt að geta boðið íbúum að fylgjast með fundum sveitarfélagsins í streymi, sérstaklega í svona víðfermt sveitarfélag eins og Borgarbyggð.

Undirritaður hefur verið þjónustusamningur vegna undirbúnings Hönnunarstaðals. Hönnunarstaðalinn er starfsfólki Borgarbyggðar til leiðbeiningar við birtingarmynd sveitarfélagsins á öllum miðlum, á prentgögnum og í umhverfinu. Staðalinn á að tryggja samræmt útlit á öllu kynningarefni og útgefnu efni sveitarfélagsins. Þessi vinna er mjög mikilvæg og hefur jákvæð áhrif á innri markaðssetningu, þ.e. íbúar sjá á miðlum og öðru útgefnu efni að við erum öll hluti af heild og eins er þetta góður liður í því að sameina stofnanir Borgarbyggðar, þ.e.a.s. starfsfólk upplifi einnig að það sé hluti af sterkari heild.

Næst á dagskrá er undirritun kaupsamnings þar sem við seljum það húsnæði sem áður hýsti leikskólann Hnoðraból í Grímsstaðalandi.

Skemmtilegir viðburðir

Ég vona að sem flestir hafi gert sér ferð í opið hús í Menntaskóla Borgarfjarðar í Hjálmakletti, en nemendur  kynntu afrakstur þeirrar kennslu sem þau hafa fengið í vikunni. Í þessari viku stunduðu nemendur Lífsnám og inntak námsins var byggt á þáttum eins og fjármálalæsi, kynheilbrigði og kynfræðslu, sjálfbærni, jafnrétti, andlegu- og líkamlegu heilbrigði o.þ.h. Skipulag vikunnar ber heitið Alls-kyns, var unnið í samstarfi við nemendur sem fengu tækifæri til að vinna með sérfræðingum á þessu sviði auk þess sem kennarar MB bjuggu til samþætt verkefni sem nemendur hafa unnið með alla lífsnámsvikuna.

Leikdeild Skallagríms frumsýnir söngleikinn Slá í gegn í kvöld og verða sýningar næstu daga, endilega pantið ykkur miða á sýninguna og njótum hæfileika leikdeildarinnar. Allar helstu upplýsingar um sýningadaga og miðakaup er hægt að nálgast á heimasíðu Borgarbyggðar.

 


Share: