Byggðasafni færð rauðvínsflaska úr Pourquoi Pas?

september 6, 2010
Byggðasafni Borgarfjarðar hefur verið færð kærkomin gjöf. Um er að ræða aldraða rauðvínsflösku úr rannsóknaskipinu Pourquoi Pas? sem fórst við Mýrar í september 1936. Það var Eysteinn Sveinbjörnsson sem færði safninu flöskuna, en hún hefur verið varðveitt hjá honum allar götur síðan skipið fannst á hafsbotni sumarið 1961, eða í tæplega hálfa öld. Ennfremur kom hann með blaðaúrklippur frá þeim tíma að skipið fannst og verða þær varðveittar í Héraðsskjalasafninu.
Á sínum tíma var það hópur undir forystu Sigurðar Magnússonar sem fann rannsóknaskipið fræga eftir ítrekaða leit við skerið Hnokka. Var kafað niður að flakinu og fannst þá meðal annars skipsklukkan með nafni skipsins. Eysteinn var í þessum leiðangri og hefur flaskan verið í hans fórum síðan. Eitthvað af rauðvíninu er ennþá í flöskunni, en tappinn er aðfenginn.
 
Í tilefni þessa hefur verið stillt upp lítilli sýningu í Safnahúsi um Pourquoi Pas? og eru þar eftirtaldir hlutir auk flöskunnar: Líkan af skipinu eftir Skúla Torfason, myndverk um harmleikinn eftir Björgvin Fredriksen og úrklippubók með fréttum af slysinu og eftirmálum þess.
 
Á meðfylgjandi mynd má sjá Eystein Sveinbjörnsson ásamt syni sínum Sveinbirni. Myndin er tekin þegar Eysteinn færði safninu flöskuna nú um helgina. Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir
(vefur safnahúss)

Share: