![](https://borgarbyggd.is/images/Mynd_0594897.jpg)
Sýningin hefur hlotið einróma lof þeirra sem hana hafa sótt, ekki síst fyrir frumleika og nýstárlega hugsun hönnuðarins, Snorra Freys Hilmarssonar leikmyndateiknara. Sýningin var opnuð í júníbyrjun í fyrra. Á veturna er hún opnuð fyrir hópa og hafa margir slíkir sótt Safnahús heim á undanförnum vikum, ekki síst skólahópar. Reiknað er með að sýningin standi óbreytt næstu árin, enda um vandaða og sérstaka uppsetningu að ræða. Þar er saga Íslands á 20. öld sögð út frá sjónarhóli barna í landinu. Sagan er sögð í ljósmyndum þar sem er eins og gestir gangi inn í risavaxið myndaalbúm sem hægt er að opna eins og jóladagatal. Á miðju gólfi stendur merkur minjagripur: Willisjeppi Jóhönnu Jóhannsdóttur ljósmóður sem tók farsællega á móti börnum í Borgarfirði um áratugaskeið á síðustu öld.