Borgnesingur í hættu! Upplestur í Safnahúsi

nóvember 22, 2016
Featured image for “Borgnesingur í hættu! Upplestur í Safnahúsi”

Miðvikudaginn 23. nóvember verður upplestur á nýrri bók í héraðsbókasafni Borgarfjarðar í Safnahúsi.  Þar kynnir Hildur Sif Thorarensen sína fyrstu bók sem heitir Einfari. Hildur er 32ja ára hugbúnaðarverkfræðingur sem nú leggur stund á nám í læknisfræði í Osló. Á meðan á verkfræðináminu stóð tók hún nokkra áfanga í ritlist og námskeið í skrifum á kvikmyndahandritum, þá hefur hún starfað við þýðingar í hjáverkum. Hún skrifaði bókina þegar hún átti að vera að undirbúa sig undir læknisfræðina en eftir skemmtilegt samtal sem hún átti við vin sinn Geir Konráð Theodórsson úr Borgarnesi fékk hún hugmynd að efni í bók og úr því varð Einfari. Í bókinni kemur Geir reyndar fyrir sem sögupersóna, en hlýtur jafnframt þau örlög að vera fyrsta fórnarlambið í verkinu.

Bókin Einfari er nokkurs konar hryllingssaga þar sem sögusviðið er Osló. Hildur segir að hún hafi viljað skapa skemmtilegar og hressilegar persónur sem þurfa að kljást við dularfull og hryllileg morð og illa innrætta morðingja.

Á miðvikudaginn mun Hildur lesa stutta kafla úr bókinni og tekur gjarnan þátt í umræðum ef spurningar vakna. Upplesturinn hefst kl. 17.00 og er reiknað með að viðburðurinn í heild sé um hálftími.

 


Share: