Borgnesingur hlýtur tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs

júní 14, 2012
Anna Þorvaldsdóttir doktor í tónsmíðum hlýtur tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2012 fyrir verk sitt Dreymi. Hún mun taka við verðlaununum í Helsinki í október næstkomandi.
Anna ólst upp í Borgarnesi og eru foreldrar hennar Birna Þorsteinsdóttir tónlistarkennari og Þorvaldur Heiðarsson trésmiður. Hún hlaut sína fyrstu tónlistarmenntun við Tónlistarskóla Borgarfjarðar þar sem hún lærði meðal annars á selló. Hún stundaði tónsmíðanám við Listaháskóla Íslanda og síðan lá leiðin til San Diego þar sem hún hefur stundað nám í tónsmíðum um nokkurra ára skeið og lauk doktorsgráðu síðastliðið haust.
Anna samdi verk fyrir Tónlistarskóla Borgarfjarðar á 40 ára afmæli skólans og einnig hefur hún samið fyrir Tónlistarfélag Borgarfjarðar og IsNord tónlistarhátíðina.
Anna hefur margsinnis fengið viðukenningar fyrir verk sín, hún fékk tvenn verðlaun til íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2011.
Borgfirðingar senda Önnu innilegar hamingjuóskir.
 
 

Share: