Betri tölvutenging

desember 19, 2006
Um helgina undirritaði Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri samning við fyrirtækið Hringiðuna um internetþjónustu á svæði hins gamla Kolbeinsstaðahrepps. Samningurinn er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á sunnanverðu Snæfellsnesi og í Hnappadal, en auk Borgarbyggðar standa Eyja- og Miklaholtshreppur og Snæfellsbær að samningnum. Það er ljóst að með þessum samningi stendur íbúum á svæðinu til boða að fá öfluga háhraðatengingu sem ætti að bæta verulega möguleika þeirra til að nýta sér kosti tölvutækninnar. Með þessu er stigið stórt skref til að bæta búsetuskilyrði á þessu svæði, en það er ljóst að þetta á eftir að nýtast einstaklingum og fyrirtækjum og ekki síst skólum á svæðinu, en fyrir Laugargerðisskóla á þessi samningur eftir að bjóða upp ýmsa möguleika til að efla skólastarf og stuðla að hagræðingu við rekstur skólans.
Undirbúningur að uppsetningu búnaðar mun hefjast nú þegar og á fyrri hluta næsta árs eiga notendur að geta farið að nýta sér þjónustuna.
 
Meðf. mynd var tekin við undirritun samningsins.
Talið frá vinstri: Guðmundur Kr. Unnsteinsson frá Hringiðunni, Eggert Kjartansson oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps, Páll Brynjarsson sveitarstjóri Borgarbyggðar og Kristinn Jónasson sveitarstjóri Snæfellsbæjar.

Share: