Barnamenningarhátíðin OK fer fram í maí nk.

mars 27, 2023
Featured image for “Barnamenningarhátíðin OK fer fram í maí nk.”

Barnamenningarhátíðin OK verður haldin dagana 8. – 13. maí næstkomandi. Hátíðin fer milli svæða með stuðningi SSV og er nú haldin í Borgarfirði og nágrenni. Á barnamenningarhátíðinni er fagnað allri menningu barna, menningu með börnum og menningu fyrir börn í lífi þeirra og verkefnum. Listaskóli Borgarfjarðar sér um skipulagið og framkvæmdina í samstarfi við fjölmarga aðila, bæði skóla og fyrirtæki. Dagskráin er í hraðri mótun og áhersla lögð á að verkefni barna og ungmenna séu í sviðsljósinu. Þetta er júróvisjón-vikan og því upplagt að leggja hreinlega alla vikuna undir menningu og skemmtun með börnum sínum.

Í undirbúningi hátíðarinnar hafa komið fram frábærar hugmyndir um verkefni og þó ekki sé hægt að framkvæma allt sem stungið hefur verið upp á að þessu sinni þá verður safnað í sarpinn og geymt til betri tíma.

Gefið verður út Barnablað í samvinnu við Skessuhorn með völdu efni þar sem sögur, myndir og ljóð barna á svæðinu fá aukna athygli. Viðburðir verða í leikskólum og skólum. Þannig munu t.d. nemendur úr söngleikjadeild tónlistarskólans bjóða leikskólum brot úr sýningunni Dýrin í Hálsaskógi. Grunnskólarnir verða með opið hús þar sem afrakstri vetrarins verður fagnað.

Í boði verða líka kvikmyndasýningar í Óðali í samstarfi við Bíó Paradís, tónleikar með frumsömdum verkum, frumsýning og tónleikar sem byggja m.a. á mjög forvitnilegum stein-trompet frá Páli á Húsafelli sem hann gaf nemanda tónlistarskólans og öðrum náttúrusprottnum hljóðfærum Páls í Reykholti, sýning og sýningarleiðsögn fyrir börn í Safnahúsinu, listsýning í Geirabakaríi auk lokahátíðar í Hjálmakletti laugardaginn 13. maí þar sem ýmsir einstaklingar og hópar á öllum aldri koma fram.

Nafn hátíðarinnar, OK, er valið vegna þess hve tengingar við orðið eru fjölbreyttar og líka hrífandi. OK er fjallið okkar allra, smátt í fjallahringnum en mikilvægt eins og börnin. OK, eins og börnin, tengist líka samvisku einstaklinga. Jökull þess er horfinn og minnir okkur þannig á ábyrgð samfélagsins og framtíð barna okkar.

Orðið OK merkir líka byrði og það minnir á fallega sögu um byrði. Maður nokkur gekk fram á ungan dreng með yngra barn á bakinu. „Þetta er þung byrði fyrir ungan dreng“ sagði maður við drenginn. Drengurinn leit upp og brosti um leið og hann sagði „Þetta er ekki byrði – þetta er systir mín“. Skilaboðin eru skýr og falleg og gætu allt eins átt við náttúruna sem allir þurfa að læra að umgangast eins og „systur“ okkar. OK er svo líka oft lesið ókei sem merkir „allt í lagi“ sem felur í sér skilaboð um létta og jákvæða lund og var skemmtilega undirstrikað í undankeppni júróvisjón núna í vor í samnefndu lagi.

Auglýst verður eftir efni í barnablaðið og allar ábendingar um inntak hátíðarinnar eða framkvæmdina eru vel þegnar. Senda má póst á tonlistarskoli@borgarbyggd.is

Þetta verður OK.

Gleðilega OK Barnamenningarhátíð dagana 8.- 13. maí.


Share: