Ársreikningur Borgarbyggðar – mikil uppbygging

maí 18, 2007
Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2006 var samþykktur samhljóða á fundi sveitarstjórnar 16. maí s.l. Í Borgarbyggð hefur verið mikil uppbygging að undanförnu og ber ársreikningurinn keim af þeirri miklu þenslu sem verið hefur í sveitarfélaginu undanfarið. Þar sem þetta er fyrsti ársreikningur sem lagður er fram í nýju sameinuðu sveitarfélagi og því er allur samanburður við fyrri ár erfiður.
 
Heildartekjur sveitarsjóðs á árinu 2006 voru 1.857 milljónir en rekstrarútgjöld án fjármagnsgjalda voru 1.781 milljón. Fjármagnsgjöld voru alls 110 milljónir, þar af var gengistap vegna erlendra lána 47 milljónir. Að teknu tilliti til fjármagnsliða var rekstur sveitarsjóðs neikvæður um 34 milljónir. Rekstur fyrirtækja sveitarfélagsins var neikvæður um 28 milljónir, þar af var rekstur félagslegra íbúða neikvæður um rúmar 24 milljónir. Samantekinn ársreikningur fyrir sveitarsjóð og fyrirtæki sveitarfélagsins sýnir því að rekstrarniðurstaða Borgarbyggðar á árinu 2006 var neikvæð um 62 milljónir sem er tæpum 50 milljónum lakari en endurskoðuð fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þess má geta að lífeyrisskuldbindingar hækkuðu um tæpar 53 milljónir eða helmingi meira en áætlun gerðu ráð fyrir.
Veltufé frá rekstri var 164 milljónir eða 8.4% af heildartekjum og sem er í samræmi við fjárhagsáætlun. Sveitarfélagið fjárfesti fyrir 525 milljónir á árinu 2006. Helstu fjárfestingar voru í byggingarlandi eða 270 milljónir, fjárfest var í húsnæði fyrir alls 177 milljónir og nettókostnaður við gatnagerð var 46 milljónir. Eignir sveitarfélagsins voru í árslok 2006 rúmar 3.460 milljónir. Heildarskuldir og skuldbindingar voru 2.422 milljónir, en tekin voru ný lán fyrir 415 milljónir á árinu 2006. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok var því 1.037 milljónir eða 0.30% af heildarfjármagni. Handbært fé í árslok 2006 var 342 milljónir.
 

Share: