
Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2017 var lagður fram til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar þann 27. mars sl.
Helstu niðurstöðutölur ársreiknings eru þær að veltufé frá rekstri í A-hluta sveitarsjóðs eru 508,3 m.kr og 536,6 m.kr. hjá samstæðunni (A-hluta sveitarsjóðs ásamt B-hluta fyrirtækjum). Það eru því sem næst sömu fjárhæðir og á árinu 2016. Langtímalán eru greidd niður um 237 m.kr hjá A hluta og 284 m.kr. hjá B hluta. Handbært fé í árslok var 848 m.kr. í samstæðureikningi. Engin ný langtímalán hafa verið tekin í þrjú ár. Hlutfall veltufjár frá rekstri er 13,7% af rekstrartekjum fyrir A hluta sveitarsjóðs. Veltufjárhlutfall er rétt um 2,0 sem segir að lausafé er helmingi hærra en skammtímaskuldir. Langtímaskuldir A-hluta eru um 1,2 ma.kr. en langtímaskuldir samstæðu eru um 3,0 ma.kr. Skuldahlutfall A-hluta er 72% en skuldahlutfall samstæðu er 111,7%. Hluti Borgarbyggðar í uppgjöri sveitarfélaganna við lífeyrissjóðinn Brú var 244 m.kr. en þær voru greiddar upp í febrúar sl. Eignir voru seldar fyrir um 40 m.kr. á árinu 2017 sem er mun lægri fjárhæð en á fyrra ári.
Ársreikningnum var vísað til lokaafgreiðslu á fundi sveitarstjórnar þann 12. apríl n.k.