Á aukafundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar í dag var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:
Sveitarstjórn Borgarbyggðar lýsir yfir mikilli ánægju með þær tillögur um aukin fjárframlög til Landbúnaðarháskóla Íslands af hálfu ríkisvaldsins sem kynntar hafa verið. Mikilvægt er að tryggja rekstrargrundvöll skólans og efla enn frekar faglegt starf hans sem átt hefur undir högg að sækja vegna fjárskorts undanfarin ár.
Landbúnaðarháskólinn er mikilvæg menntastofnun fyrir landið allt en ekki síður mikilvægur samfélaginu í Borgarbyggð þar sem fjöldi fólks býr og starfar á Hvanneyri þar sem að skólinn er og hefur verið kjölfestan í búsetunni. Sveitarstjórn Borgarbyggðar lítur á þessa aukningu fjárframlaga sem mikilvægan áfanga í að verja Landbúnaðarháskólann sem sjálfstæða menntastofnun og fagnar því sérstaklega að stjórnvöld hafi sýnt málefnum Landbúnaðarháskólans skilning við núverandi aðstæður.
Samstaða heimamanna, Bændasamtaka Íslands og þingmanna kjördæmisins hefur verið til mikillar fyrirmyndar í þessu máli og mun vara áfram til eflingar skóla- og rannsóknarstarfs á Hvanneyri. Það er von okkar að hækkun á fjárveitingum til skólans verði til þess að öflugir einstaklingar sækist eftir starfi rektors skólans en það starf er laust til umsóknar um þessar mundir.