Heilbrigðisráðherra í samráði við sóttvarnalækni hefur ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur frá og með 16. mars næstkomandi í fjórar vikur. Í því felst að viðburðir þar sem fleiri en 100 manns koma saman eru óheimil. Er þetta gert til þess að hægja á útbreiðslu COVID – 19 svo að heilbrigðisþjónustan geti átt auðveldara með að takast á við álagið sem framundan er.
Ljóst er að þessi ákvörðun yfirvalda kemur til með að hafa áhrif á starfsemi Borgarbyggðar. Í ljósi framvindu málsins fundaði byggðarráð, viðbragðsteymi Borgarbyggðar og skólastjórnendur til þess að fara yfir stöðuna og ræða mögulegar sviðsmyndir sem geta komið upp næstu daga.
Þjónusta og starfsemi sveitarfélagsins næstu daga
Á komandi vikum verður reynt eftir bestu getu að halda leik- og grunnskólastarfi óskertu þar til annað kemur í ljós en sveitarfélagið fer eftir tilmælum ráðherra og mun bregðast við þeim eins fljótt og auðið er. Starf tónlistarskólans og frístundar mun fylgja tilmælum sem falla undir grunnskóla.
Mikilvægt er að sveitarfélögin vinni að skipulagningu skólastarfs m.v. ofangreindar ákvarðanir og aðstæðna á hverjum stað. Samkvæmt leiðbeiningum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur verið ákveðið að hafa starfsdag mánudaginn 16. mars til þess að stjórnendur í samvinnu við starfsmenn geti skipulagt skólastarfið sem best á þessu tímabili.
Grunn- og leikskólar í Borgarbyggð, Tónlistarskóli Borgarfjarðar og frístund verður lokað mánudaginn 16. mars nk.
Nánari upplýsingar er að vænta á mánudaginn en þá munu stjórnendur upplýsa foreldra og forráðamenn um skipulag á skólastarfi fyrir komandi vikur.
Borgarbyggð tók þá ákvörðun í síðustu viku að loka félagsstarfi aldraða og að starfsemi Öldunnar yrði skert og mun sú ákvörðun gilda áfram.
Viðbragðsáætlun Borgarbyggðar birt
Nú hefur viðbragðsáætlun Borgarbyggðar verið formlega birt á heimasíðu sveitarfélagsins og er að finna á upplýsingasíðu Borgarbyggðar vegna COVID-19. Þar eru einnig að finna helstu upplýsingar og tilkynningar frá sveitarfélaginu.
Viðbragðsáætlun Borgarbyggðar vegna COVID-19
Borgarbyggð hvetur íbúa til þess að fylgjast vel með fréttum og upplýsingum frá skólunum á komandi dögum. Nýjustu upplýsingar munu birtast á heimasíðunni.