Afsláttur af gatnagerðargjöldum

maí 6, 2019
Featured image for “Afsláttur af gatnagerðargjöldum”

Byggðarráð Borgarbyggðar ákvað á fundi sínum þann 2. maí að veita 50% afslátt af gatnagerðargjöldum af íbúðarhúsnæði og 100% afslátt af lóðargjöldum til að hvetja til byggingarframkvæmda í sveitarfélaginu. Afslátturinn mun gilda allt árið 2019 og kemur því til ívilnunar fyrir þá sem hafa þegar fengið úthlutað á árinu 2019. Afslátturinn tekur til allra lóða sem þegar eru tilbúnar til úthlutunar.

Með því að lækka gatnagerðargjöld með þessum hætti er verið að gefa húsbyggjendum talsverð betri kjör en áður hefur tíðkast á svæðinu og stuðla að aukinni uppbyggingu í sveitarfélaginu. Ljóst er að skortur hefur verið á húsnæði og líkindi eru fyrir því að það standi íbúafjölgun fyrir þrifum. Góð niðurstaða ársreiknings 2018 og aukning útsvars gefur sterklega til kynna að hagsæld fari vaxandi á svæðinu og því er mikilvægt að fylgja því eftir í verki. Nokkuð framboð er af lóðum sem eru tilbúnar til úthlutunar og vonast byggðarráð til þess að ákvörðunin komi hreyfingu á umræddar lóðir og að framboð á íbúðarhúsnæði aukist í kjölfarið. 


Share: