Í sumar hefur markvisst verið unnið að endurbótum á opnum svæðum í sveitarfélaginu. Í Bjargslandi hefur þótt skorta á fjölbreyttari afþreyingarmöguleika fyrir börn í hverfinu en nú hefur verið bætt úr því.
Ærslabelgi hefur verið komið fyrir á Wembley og einnig verður nýjum knattspyrnumörkum komið fyrir á sama svæði.
Þess má til gamans geta að fyrr í sumar var settur upp ærslabelgur á skólalóðinni á Hvanneyri og leiksvæðið við Hrafnaklett lagfært eins og áður hefur komið fram.
Það er von sveitarfélagsins að íbúar taki vel í þessar framkvæmdir og endurbætur. Auk þess eru íbúar sveitarfélagsins sem og aðrir gestir beðnir að ganga vel um tækin en nýlega voru unnin skemmdaverk á ærslabelgnum við íþróttamiðstöðina í Borgarnesi og ljóst er að hann er ónothæfur. Það er öllum til hagsbóta ef hugsað er vel um fallegu útisvæðin okkar.