Að skapa úr orðum

nóvember 13, 2009
Eitt sinn var gleði á labbi
hitti þar brosið
gleðin og brosið héldu áfram
hittu þar hamingjuna.
 
 
Ljóð fimmtu bekkinga í grunnskólum í Borgarfirði og nágrenni eru nú til sýnis í Safnahúsi í Borgarnesi. Börnin fengu ákveðin efni til að fjalla um og ljóðin bera þess vitni að þau kunna að skapa úr orðum eins og sjá má í ofangreindu ljóði eftir Þorgeir Þorsteinsson.
Það var fjölmennt við opnun sýningarinnar í gær. Þar voru lesin ljóð eftir Þuríði Guðmundsdóttur skáld frá Sámsstöðum og Hildur M. Jónsdóttir frá Brúðuheimum kom og talaði við krakkana um sköpunarlistina og kynnti þeim brúðusmíði.
 
Ljóðasýningin verður opin almenningi til 26. nóvember næstkomandi alla virka daga frá 13-18.
 
Þetta er í fimmta sinn sem Safnahús gengst fyrir uppákomu um bókmenntasköpun barna á þessum árstíma í því augnamiði að hvetja til þessa tjáningarforms, en dagsetningin er höfð sem næst Degi íslenskrar tungu. Skólarnir sem taka þátt í keppninni eru eftirtaldir: Grunnskólinn í Borgarnesi, Grunnskóli Borgarfjarðar, Heiðarskóli, Laugargerðisskóli og Varmalandsskóli.
 
Fyrri myndin með þessari frétt er tekin á opnuninni þar sem Hildur M. Jónsdóttir ræðir við krakkana. Á síðari myndinni má sjá vegg þar sem ljóð fimmtu bekkinga í Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri eru til sýnis.
 
Ljósmyndir: GJ

Share: