Íbúar í Borgarbyggð hafa staðið sig nokkuð vel í flokkun úrgangs á árinu. Þegar bornar eru saman tölur þjónustuaðila sveitarfélagsins um magn úrgangs úr ílátum við heimili í sveitarfélaginu fyrstu 11 mánuði ársins, kemur í ljós að magn úrgangs til urðunar í Fífholtum hefur dregist saman um rúmlega 123 tonn miðað við sama tímabil árið 2019, fór úr 521 tonni í 398 tonn.
Á sama tímabili hefur meira af endurvinnsluúrgangi skilað sér í grænu endurvinnsluílátin og nam aukningin tæplega 20 tonnum á þessu tímabili, fór úr 153 tonnum í 173 tonn.
Hafin var söfnun lífræns úrgangs í apríl og hefur frá þeim tíma verið safnað rúmlega 72 tonnum af lífrænum eldhúsúrgangi til moltugerðar.
Segja má að íbúar sveitarfélagsins hafi tekið vel á móti brúnu tunnunni og það er jákvætt að sjá góðan árangur í úrgangsmálum, sérstaklega þegar haft er í huga að vegna Covid- 19 hafi íbúar varið meiri tíma heima við og úrgangsmyndun verið meiri inni á heimilum.
En betur má ef duga skal og í náinni framtíð verða gerðar kröfur um frekari samdrátt í urðun úrgangs. Til að stuðla að frekari flokkun, hefur verið ákveðið að auka hirðingu endurvinnslutunnunnar á árinu 2021. Grænt kar í dreifbýli verður hirt á fjögurra vikna fresti og græn tunna í þéttbýli verður hirt á tveggja vikna fresti allt árið. Óbreytt hirðingartíðni verður á öðrum ílátum og afgreiðslutími á gámastöðinni í Borgarnesi verður óbreyttur.