Vinna hafin við gerð sjálfbærnistefnu fyrir Borgarbyggð

desember 1, 2020
Featured image for “Vinna hafin við gerð sjálfbærnistefnu fyrir Borgarbyggð”

Í sumar fékk Borgnesingurinn Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir, nemi við Háskólann í Groningen í Hollandi, styrk frá Nýsköpunarsjóð námsmanna til að gera drög að sjálfbærnistefnu fyrir Borgarbyggð og í beinu framhaldi aðgerðaráætlun fyrir umræddu stefnu. Ester stundar nám í Global Responsibility and Leadership, eða hnattræn ábyrgð og leiðtogahæfni líkt og það útleggst á íslensku.

Ester Alda vildi vinna verkefni sem tengdist náminu hennar og því ákvað hún að slá til þegar sú vitneskja lá fyrir að Borgarbyggð væri ekki með sjálfbærnistefnu. Sjálfbærnistefna byggist á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og það gerir einnig námið hennar. Ester hafði því góðan grunn til þess að leggja af stað í þessa vegferð með sveitarfélaginu.

Við vinnslu verkefnisins voru heimsmarkmiðin grandskoðuð og sérstök áhersla lögð á þá þætti sem Borgarbyggð á lengst í land með að uppfylla. Auk þess skoðaði Ester Alda sambærilegar stefnur annarra sveitarfélaga sem og núverandi stefnur Borgarbyggðar sem gætu tengst heimsmarkmiðunum. Út frá fyrirliggjandi gögnum gerði Ester Alda umrædd drög sem voru kynnt fyrir byggðarráði í september.

Það kom Ester Öldu á óvart hversu mikinn meðbyr hún fékk við vinnslu verkefnisins. Þeir aðilar sem hún ræddi við voru afar jákvæðir og spenntir fyrir drögunum og að sama skapi var ánægjulegt að sjá hversu góð viðbrögðin voru við niðurstöðum verkefnisins. Hún vonar að jákvæðnin verði til þess að verkefnið komist í réttan farveg innan sveitarfélagsins.

Ester telur að næsta skref sé að fá sem flesta að borðinu og eiga samtalið. Hún bendir á að einungis sé um drög að ræða og formlega stefnu þurfi að móta. Því þykir henni sjálfsagt að sem flestar raddir heyrist og að víðtækur stuðningur náist, bæði meðal pólitískra fulltrúa sem og íbúa. Einnig þyrfti að setja fram skýra tímasetta aðgerðaráætlun fyrir þá vinnu sem framundan er.

Í lokin segir Ester:

,,Borgarbyggð hefur alla burði til að verða eitt sjálfbærasta sveitarfélag landsins ef ekki það sjálfbærasta ef haldið er rétt á spöðunum. Næstu ár eru þau mikilvægustu varðandi sjálfbærni í heiminum öllum og því fyrr sem gripið er til aðgerða því betra. Þetta er samvinnuverkefni fyrir komandi kynslóðir og ég hef fulla trúa á að íbúar Borgarbyggðar séu tilbúnir að taka slaginn“.


Share: