Snorrahátíð á laugardaginn

júlí 12, 2017
Featured image for “Snorrahátíð á laugardaginn”

Snorrastofa býður til afmælishátíðar næstkomandi laugardag 15. júlí 2017 í Reykholti – í tilefni af  70 ára afmæli Snorrastyttunnar sem Norðmenn gáfu Íslendingum.

Fullyrða má að einhver merkasti viðburður í sögu héraðsins á seinni tímum hafi verið afhending Snorrastyttunnar í júlímánuði 1947 – en þá var haldin fjölmennasta þjóðhátíð í sögu héraðsins.  Hátíðarhöldin 1947 voru  í  undirbúningi í áratugi – og var ótrúlega mikið við haft, þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnir Íslands og Noregs tóku þátt í hátíðarhöldunum og talið er að á milli 10 og 14 þúsund manns hafi komið í Reykholt til að taka þátt í hátíðinni sem markaði djúp spor í menningarvitund þjóðarinnar. Nú þegar 70 ár eru liðin frá því að styttan af Snorra Sturlusyni eftir norska myndhöggvarann Gustav Vigeland var afhjúpuð við fjölmenna  og virðulega athöfn, í júlímánuði 1947 er því verðugt tilefni til afmælishátíðar – og sögusýningar.

Viðburðirnir 1947 fóru fram undir styrkri stjórn Snorranefnda – þeirri i Noregi þar sem Ólafur krónprins var heiðursforseti og íslensku Snorranefndinni með formönnum flestra stjórnmálaflokkanna.  Stór hópur Norðmanna kom til landsins af þessu tilefni; herskip og farþegaskip – leiðtogar úr norsku þjóðlífi og ástríðufullir aðdáendur Snorra Sturlusonar.

Á 70 árum hefur íslenskt þjóðfélag gjörbreyst – og það er einkar fróðlegt að kynna nútímafólki aðstæður og málafylgju frá þeim tíma sem styttan af Snorra Sturlusyni lagði af stað útí heiminn og þartil henni var komið á stöpul. En sjálf hátíðin var ekki síður eftirminnileg – og þótti ævintýri hversu vel Borgfirðingum tókst að sviðsetja hana á fögrum júlídegi árið 1947. Sjötíu árum síðar rifjum við upp þá sögu á sýningu – í máli og myndum  í gamla héraðsskólanum. Við styttuna er fyrirhuguð hátíðardagskrá sem hefst stundvíslega kl. 14. Dagskráin er ofin saman með ýmsum þáttum:

Reykholtsstaður heilsar. – Sr. Geir Waage

Setning hátíðar. Ólafur Ragnar Grímsson fyrrv. forseti Íslands

Cecilie Landsverk sendiherra Noregs,  ávarp

Foreningen Snorres venner –  Kim F. Lingjærde formaður

Saga Snorrastyttu – styttan í vitund tveggja þjóða – Óskar Guðmundsson

Björn Bjarnason formaður  stjórnar Snorrastofu

Sögusýning opnuð –  Snorrahátíðin 1947 í lifandi myndum – og sjötugur hljóðheimur. Bergur Þorgeirsson forstöðumaður Snorrastofu.

Dagkrárstjóri hátíðar: sr. Elínborg Sturludóttir.

 

Lúðraþytur: Baldvin Oddsson og Oddur Björnsson

Reykholtskórinn syngur norsk og íslensk ættjarðarlög, stjórnandi Viðar Guðmundsson

Veitingar verða seldar í tjaldi frá kl. 12.30.

Í Reykholti verður ýmislegt fleira gert til hátíðarbrigða 15. júlí og eru allir velkomnir til staðarins af þessu tilefni.

(Fréttatilkynning frá Snorrastofu í Reykholti)


Share: