Burðarplastpokalaus Borgarbyggð

júlí 11, 2017
Featured image for “Burðarplastpokalaus Borgarbyggð”

Sveitarstjórn hefur samþykkt að hefja þá vegferð að draga úr notkun á einnota burðarplastpokum í sveitarfélaginu. Til að verkefnið sé vænlegt til árangurs skiptir aðkoma fyrirtækja í sveitarfélaginu lykilmáli, fyrirtækja sem afhenda kaupendum vörur í poka. Fulltrúar Borgarbyggðar hafa nú heimsótt vel flest fyrirtæki í sveitarfélaginu til að kynna verkefnið og hafa viðtökur verið mjög góðar. Í ljós kemur að þó nokkur fyrirtæki hafa þegar hætt allri notkun burðarplastpoka og mörg hafa dregið úr notkun þeirra og stefna að stærri skrefum í átt að plastpokaleysi. Þar sem eðli reksturs er misjafnt er lagt er til að hvert og eitt fyrirtæki taki þau skref sem þau treysta sér til og tileinki sér lausnir sem henta hverju og einu. Undanfarin misseri hefur umræðan um skaðsemi plasts verið áberandi og merkja má greinilega vitundarvakningu meðal almennings. Áætlað er að ýta verkefninu Burðarplastpokalaus Borgarbyggð úr vör á haustdögum og verður það kynnt nánar þegar nær dregur.


Share: