Tónlistarskóli Borgarfjarðar og Safnahús Borgarfjarðar hafa á undanförnum árum unnið saman að listrænni sköpun ungs fólks á grundvelli borgfirskra bókmennta. Á hverju ári er valinn höfundur eða þema sem nemendur skólans semja lög við. Útbúið er hefti með textum og fróðleik um höfund þeirra, í samvinnu við fjölskyldu viðkomandi skálds. Nemendur velja sér síðan texta og tónsetja hann. Þeir ákveða síðan flutningsmátann og flytja verkin, allt undir handleiðslu kennara sinna. Þetta verkefni hefur fengið afar jákvæð viðbrögð, bæði hjá nemendum skólans og fjölskyldum þeirra, svo og hjá sveitarstjórn Borgarbyggðar. Það byggir á ákvæði í menningarstefnu sveitarfélagsins um frumkvæði, sköpun og menningararf. Uppskerutónleikar verkefnisins verða nú haldnir í fimmta sinn, á sumardaginn fyrsta. Þar flytja á þriðja tug nemenda verk sín og eru þeir yngstu í 1. bekk í grunnskóla.
Tónlistarskóli Borgarfjarðar fagnar 50 ára afmæli í ár og 164 nemendur stunda þar nám. Safnahús hefur verið við lýði í svipaðan tíma eða síðan um 1960. Báðar stofnanir eru í eigu Borgarbyggðar og vinna að þessu verkefni þvert á fagsvið sín undir heitinu: „Að vera skáld og skapa“. Verkefnisstjórar eru Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss og Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri Tónlistarskólans.
Höfundurinn sem valinn var að þessu sinni er Halldóra B. Björnsson (1907-1968) sem telja má eitt af merkustu skáldum landsins. Í formála að ljóðasafni verkefnisins kemst Þóra Elfa Björnsson dóttir hennar svo að orði:
„Halldóra elskaði landið sitt og bar djúpa virðingu fyrir því og orti mörg ljóð þar sem þessar tilfinningar koma vel fram. Hún var þeirrar skoðunar að við ættum öll að ganga vel um jörðina og skila henni í góðu standi til næstu kynslóða. Hugsa um þá sem á eftir koma. …Hún átti létt með að yrkja um tilfinningar og samband fólks við hvert annað hvort sem var rímað eða órímað. Hún þótti hafa gott vald á íslensku máli og bregða upp einföldu myndmáli í ljóðum sínum.“
Tónleikarnir verða eins og fyrr segir í Safnahúsi á sumardaginn fyrsta þann 20. apríl n.k. og hefjast kl. 15.00. Dagskráin er öllum opin og boðið verður upp á sumarkaffi.