Föstudaginn 23. desember sl. felldi Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 3. október sl. um að samþykkja leyfi til að byggja hótelbyggingu, opinn bílakjallara og tæknirými í kjallara við Borgarbraut 59. Framkvæmdir munu því stöðvast þar til nýtt deiliskipulag hefur verið samþykkt en unnið verður að því að festa tryggilega þær einingar sem þegar er búið að reisa til að koma í veg fyrir slysahættu. Byggðaráð mun fjalla um úrskurðinn á fundi nk fimmtudag.
Úrskurðurinn byggir á kæru Ragnheiðar Brynjólfsdóttur og Hauks Arinbjarnarsonar Kveldúlfsgötu 2a Borgarnesi frá 1. nóvember sl. varðandi þá ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 3. október 2016 að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu, opinn bílakjallara og tæknirými í kjallara á lóð nr. 59 við Borgarbraut.
Forsaga málsins er sú að sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti hinn 14. apríl 2016 breytingu á gildandi deiliskipulagi fyrir lóðirnar 55-59 við Borgarbraut. Hinn 16. september s.á. veitti byggingarfulltrúi Borgarbyggðar byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á lóð nr. 57-59 við Borgarbraut á grundvelli nefndrar deiliskipulagsbreytingar. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 23. september 2016, var fyrrgreind skipulagsbreyting felld úr gildi þar sem samræmi var ekki talið vera á milli gildandi aðalskipulags Borgarbyggðar og breytingarinnar. Öðlaðist þannig deiliskipulagið sem í gildi var fyrir breytinguna aftur gildi og á grundvelli þess samþykkti byggingarfulltrúi á fundi sínum þann 3. október 2016 að veita byggingarleyfi fyrir 59 herbergja hótelbyggingu á lóðinni Borgarbraut 59 með opinni bílageymslu og tæknirými í kjallara.
Í niðurstöðu nefndarinnar nú er vísað til þess að í umræddu skipulagi sé umrædd lóð við Borgarbraut 59 á skilgreindu miðsvæði (M). Á því svæði sé heimiluð blönduð landnotkun íbúða, þjónustustofnana, verslunar og þjónustu og sé sú skilgreining landnotkunar í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Hin kærða ákvörðun veiti leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu á lóðinni Borgarbraut 59 og sé fyrirhuguð bygging þannig í samræmi við fyrirhugaða landnotkun aðalskipulags og hið kærða byggingarleyfi í samræmi við nefnda sérskilmála um stærð og nýtingarhlutfall í deiliskipulagi. Hins vegar hafi sveitarfélagið með greindum sérskilmálum um landnotkun umræddrar lóðar sett takmarkanir á notkun hennar og telur nefndin þannig að hótelbygging á lóðinni rúmist ekki innan skilmála deiliskipulagsins um landnotkun lóðarinnar. Því fellir nefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 3. október sl. um að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu, opinn bílakjallara og tæknirými í kjallara á lóð nr. 59 við Borgarbraut.
Á fundi sínum þann 22. desember sl. samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar að auglýsa breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010 – 2022 Miðsvæði Borgarnes. Tillagan er sett fram á uppdrætti og greinargerð dags. 15.12.2016. Hún felur í sér breytingu fyrir götureit innan miðsvæðis Borgarness M. Innan miðsvæðis verður skilgreindur götureitur þannig að úr verði tveir miðsvæðisreitir M1 og M3. Nýr reitur M3 er 0,7 ha að stærð og nær til lóðanna Borgarbrautar 55, 57 og 59. Tillagan var kynnt á opnum íbúafundi 20. desember 2016 í Borgarnesi.
Á sama fundi samþykkti sveitarstjórn tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Borgarbraut 55-59 í Borgarnesi. Tillagan er sett fram á uppdrætti og greinagerð dags. 15.12.2016. Markmið breytingartillögunnar eru að skapa skilyrði fyrir uppbyggingu hótels í bland við íbúðar- og verslunarhúsnæði á miðsvæði Borgarness. Tillagan var kynnt á opnum íbúafundi 20. desember 2016 í Borgarnesi.
Unnið hefur verið að fyrrgreindum breytingum á aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010 – 2022 og deiliskipulagi fyrir Borgarbraut 55-59 á Miðsvæði Borgarness í framhaldi af úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis – og auðlindamála frá því 23. september sl. Fyrrgreindar tillögur að breytingum fara síðan í lögskipað kynningar- og umsagnarferli samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.