Ný ákvæði um efnistöku.

ágúst 18, 2000

Þann 1. júlí 1999 tóku gildi ný lög nr. 44/1999 um náttúruvernd og eru í þeim nokkrar breytingar frá fyrri lögum. Í lögunum eru m.a. ný og hertari ákvæði um nám jarðefna. Markmiðið með breytingunum er ekki að koma í veg fyrir efnistöku heldur fyrst og fremst að tryggja virkt eftirlit af hálfu náttúruverndaryfirvalda og vöndu vinnubrögð þannig að efnistaka verði eins og kostur er í sátt við umhverfið.

Sérstök athygli er vakin á ákvæðum um nám jarðefna í lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd. Í 47. gr. laganna (heimild til efnistöku) segir m.a.:

“Öll efnistaka á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga er háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.

Þar sem ekki liggur fyrir samþykkt aðalskipulag sem Náttúruvernd ríkisins og náttúrverndarnefnd hefur gefið umsögn sína um, sbr. 33. gr., skal liggja fyrir umsögn þeirra um framkvæmdina áður en leyfi er veitt.”

Ennfremur er bent á 48. gr. þar sem kveðið er á um að námuréttarhafi skuli leggja fram áætlun um efnistöku áður en leyfi er veitt til náms jarðefna og 49. gr. þar sem fjallað er um frágang efnistökusvæða að loknum vinnslutíma.


Share: