Bæjarstjórn Borgarbyggðar samþykkti s.l. haust að stuðla að því að íbúar og fyrirtæki taki upp flokkun á sorpi í sveitarfélaginu. Sorpflokkun á heimilum verði í meginatriðum tvenns konar, þ.e. flokkun í lífrænt sorp sem fari í jarðgerð, og flokkun í annað sorp sem fari til urðunar.
Gámastöð hefur verið opnuð í Borgarnesi þar sem tekið er á móti sorpi til flokkunar og endurvinnslu. Í vor var einnig auglýst eftir tuttugu heimilum í Borgarbyggð til að stunda heimajarðgerð í tilraunaskyni. Íbúum var gefinn kostur á að skrá sig til þátttöku í verkefninu og fá jarðgerðarkassa gegn vægu gjaldi. Alls sóttu 24 aðilar eftir þátttöku í jarðgerðarverkefni Borgarbyggðar og var samþykkt að gefa öllum kost á að taka þátt í verkefninu. Fyrstu safnkassarnir eru afhentir í dag 16. júní og kemur það í hlut Kolfinnu Þ. Jóhannesdóttur bæjarfulltrúa og formanns Náttúruverndarráðs að taka við fyrsta kassanum.
Jarðgerðarkassarnir eru af tveimur gerðum, Sandvik og Gröna Johanna sem báðir uppfylla kröfur norræna svansins sem er sameiginlegt umhverfis- og gæðamerki Norðurlandanna. Þetta eru fyrstu jarðgerðarkassarnir með merki norræna svansins sem teknir eru í notkun á Íslandi en þeir eru fluttir inn af fyrirtækinu Vistmenn ehf.
Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur hefur haft umsjón með þessu tilraunaverkefni Borgarbyggðar og útbúið ítarlegt leiðbeiningarefni sem fylgir með jarðgerðarkössunum. Stefnt er að því að flokkun á lífrænu sorpi verði tekin upp í leiksskólum og grunnskólum í Borgarbyggð á næstu mánuðum og síðan að fleiri heimili bætist í hópinn næsta vetur þegar reynsla verður fengin af þessum fyrsta hluta.