Skólaskýrsla Sambands íslenskra sveitarfélaga

nóvember 3, 2009
Hag- og upplýsingasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út Skólaskýrslu 2009 þar sem birtar eru tölulegar upplýsingar um leikskóla og grunnskóla og gerðar aðgengilegar fyrir sveitarstjórnarmenn, skólastjórnendur og aðra hagsmunaaðila. Að auki er þar að finna upplýsingar um tónlistarskóla. Nú á sér stað mikil umræða í Borgarbyggð um hagræðingu í skólamálum og þeir sem vilja einnig kynna sér skýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga geta smellt mér fyrir neðan.
Í skýrslunni í ár kemur m.a. fram að viðvera barna í leikskólum hefur lengst sl. ár og þá sérstaklega í stærri sveitarfélögum. Leikskólabörnum hefur fjölgað um 9% á tímabilinu 2004-2008 og rekstrarútgjöld á sama tíma hafa aukist um 46% á verðlagi ársins 2008. Þá hefur hlutfall tekna eða þjónustugjalda af rekstrarkostnaði lækkað umtalsvert á sama tíma, eða úr 28% í 15% á landsvísu.
Sé litið til grunnskóla má sjá að nemendum fækkar enn árið 2008 miðað við fyrra ár og um 2% sé miðað við árið 2004. Hlutfall grunnskólakennara á landsvísu er um 87% og hefur einungis hækkað um tvö hlutfallsstig miðað við árið 1998. Á tímabilinu 2004-2008 fjölgaði starfsfólki við kennslu um 12%, en öllu starfsfólki um 11%. Rekstrarkostnaður á hvern nemanda árið 2008 er 1.154.000 krónur og hefur aukist um 25% eða 227 þúsund krónur frá árinu 2004.
Skýrslan er unnin af Valgerði Freyju Ágústsdóttur á hag- og upplýsingasviði sambandsins.
– af vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Share: