„Geðveik helgi“ á Ísafirði

október 11, 2012
Húsráð Óðals lagði leið sína á Ísafjörð um síðustu helgi til að taka þátt í landsmóti Samfés sem þar var haldið. Unglingar fylltu bæinn á Ísafirði þessa helgi og tóku krakkarnir þátt í ýmsum smiðjum. Okkar krakkar tóku m.a. þátt í útieldun, ljósmyndun, kokkasmiðju, skartgripagerð, kertastjakagerð úr pappa og tie dye en það snýst um að lita og klippa til fatnað. Starfsmaður Óðals hélt utan um Bakarasmiðjuna ásamt Katrínu Lilju sem starfar í félagsmiðstöðinni Hreysinu. Þetta var geðveik helgi eins og krakkarnir segja og þau kynntust fullt af krökkum, lærðu marga skemmtilega leiki og fengu margar nýjar og góðar hugmyndir.
Krakkarnir komu heim á sunnudagskvöld og tóku strax til við að undirbúa brjóstsykursgerð sem fram fór á mánudag og þriðjudag, undirbúa opið hús á miðvikudagskvöld og tónleika með hljómsveitinni Retro Stefsson sem verða í kvöld, fimmtudagskvöld og svo diskótek á föstudagskvöldið. Það er mikið að gera í félagsmiðstöðinni þessa dagana. Í næstu viku tekur við undirbúningur fyrir æskulýðsballið og jólaútvarpið en útvarpið verður 20 ára í ár. Það verður öllu veglegra en undanfarin ár þar sem sent verður út tveimur dögum lengur. Gamlir nemendur grunnskólans munu taka þátt í útsendingum á laugardegi og sunnudegi. Sannkallað partý í Óðali þessa dagana.
Meðfylgjandi mynd tók Sissi af krökkunum á leið til Ísafjarðar.

Share: