Sveitarstjórn og yfirstjórn LbhÍ hittust á fundi

september 23, 2014
Gamli skólinn á Hvanneyri
Sveitarstjórn Borgarbyggðar og yfirstjórn Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri hittust nýverið á fundi þar sem farið var yfir stöðu mála hjá skólanum. Sveitarstjórn Borgabyggðar óskaði eftir fundinum vegna frétta um uppsagnir á 10 starfsmönnum skólans og þá niðurskurðarkröfu sem birtist í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015. Yfirstjórn skólans brást fljótt við og aðilar voru sammála um að nýta tækifærið til að ræða samstarfsverkefni og framtíðarsýn.
Björn Þorsteinsson rektor fór yfir stöðu mála hjá LbhÍ en skólinn metur hagræðingakröfu næsta árs um 61 milljón. Niðurskurður á ríkisframlagi milli ára er tæpar 8 milljónir frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti og framlag frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti lækkar um 18 milljónir. Að auki er gert ráð fyrir að LbhÍ verði gert að greiða 35 milljónir á næsta ári vegna skuldar við ríkisjóð en í ár hefur verið gerð krafa um 10 milljóna greiðslu inn á skuld við ríkisjóð. Rætt var um hvernig sveitarstjórn og yfirstjórn skólans gætu unnið saman að því að vinna gegn frekari niðurskurði af hálfu ríkisvaldsins.
Á fundinum var einnig rætt um helstu samstarfsverkefni sveitarfélagsins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Í skoðun eru breytingar á almenningssamgöngum í uppsveitum Borgarfjarðar og fram hafa komið ábendingar um aukna þjónustu við íbúa á Hvanneyri. Þá voru ræddar hugmyndir um aukna nýtingu á nemendagörðum skólans, afnot af íþróttahúsi og umsjón með opnum svæðum.
 
 

Share: