Hallsteinn og Bjarni – sýning í Safnahúsi

apríl 21, 2009
Hallsteinn Sveinsson
Á sumardaginn fyrsta kl. 14.00 verður opnuð í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi sýning á verkum úr listaverkasafni hins mæta listvinar Hallsteins Sveinssonar frá Eskiholti. Sýningin er tileinkuð Bjarna Bachmann safnverði sem vann merkt starf fyrir söfnin í Borgarfirði um aldarfjórðungsskeið. Verkin sem sýnd verða eru eftir marga af þekktustu listamönnum landsins s.s. Nínu Tryggvadóttur, Þorvald Skúlason, Hring Jóhannesson, Kristján Davíðsson, Svavar Guðnason, Gerði Helgadóttur, Ásmund Sveinsson (bróður Hallsteins), Jóhann Briem, Hjörleif Sigurðsson og Pál Guðmundsson.
Bjarni Bachmann
Við val verkanna naut Safnahús faglegrar aðstoðar Helenu Guttormsdóttur myndlistarkonu. Allir hjartanlega velkomnir.
Börn í 100 ár– Af þessu tilefni verður sýningin Börn í 100 ár opin þennan dag frá kl. 13.00 – 17.00 en annars verður fastur opnunartími hennar frá 1. júní til 1. september alla daga frá 13-18. Sýningin er líka opnuð eftir samkomulagi fyrir hópa yfir veturinn.
Sýning á kirkjumunum– þess má geta að við sama tækifæri verður opnuð sýning á vegum sóknarnefndar Borgarneskirkju í fordyri Safnahúss og þar verða ýmis gögn og munir er tengjast kirkjunni til sýnis. Tilefnið er 50 ára vígsluafmæli kirkjunnar.
 
 

Share: