Félagsmiðstöðin Óðal kynnir nýtt lógó

Í byrjun starfsárs hófst vinna við að þróa nýtt lógó fyrir Félagsmiðstöðina Óðal. Jói Waage var fenginn til verksins og hafði það markmið að skapa merki sem væri bæði auðþekkjanlegt, einfalt í framleiðslu og auðvelt að nota á ýmsum miðlum, fatnaði og sem kynningarefni.

„Mig langaði til að gera lógó sem væri auðvelt að prenta og setja á fatnað og þess háttar. Þetta er mjög einfalt, hefur skírskotun í menningararfleiðina. Merkið sjálft er rúnin Óðal, rún Óðins, sem verður að hjarta og táknar lífsþrótt ungafólksins,“ segir Jói í kynningu sinni á lógóinu.

Hugmynd Jóa fékk strax góðar viðtökur og var samþykkt einróma af húsráði. Í kjölfarið voru kynntar nokkrar litasamsetningar og útfærslur, og varð núverandi útgáfa fyrir valinu. Lógóið hefur nú þegar verið tekið í notkun á samfélagsmiðlum og kemur vel út í ólíkum litum, hvort sem er í föstum útlitum eða tímabundnum litatengdum átaksverkefnum, líkt og „Bleikum október“.

Merkið byggir á rúninni Óðal, sem tengist norrænni menningu og arfleifð, en með listraenni útfærslu Jóa verður hún að hjarta – táknmynd fyrir samstöðu, orku og sköpunarkraft ungs fólks í Óðali.