Gróður á lóðum og hreinsunarátak

apríl 5, 2019
Featured image for “Gróður á lóðum og hreinsunarátak”

Nú þegar vorið nálgast er tilvalið að huga að ástandi garða og grænna svæða. Umhirða á einkalóðum hefur mikil áhrif á götumynd og þar með yfirbragð þéttbýliskjarnanna okkar. Eins og áður leggur Borgarbyggð áherslu á umhirðu opinna svæða í umsjón sveitarfélagsins með það að markmiði að bæta ásýnd umhverfisins. Þátttaka íbúa er lykilatriði til að vel takist til og því er hreinsunarátak í þéttbýli fyrirhugað um mánaðamótin apríl/maí. Nánari upplýsingar verða birtar á næstu vikum. Ennfremur verður hreinsunarátak í dreifbýli auglýst fljótlega.


 


Trjáklippingar og reglur um gróður á lóðamörkum


 


Gott er að leita til fagfólks um ráðgjöf t.d. þegar kemur að klippingu stórra trjáa eða þegar vafi leikur á um umhirðu trjágróðurs, til að koma í veg fyrir mögulegar skemmdir.


 


Vafi getur leikið á um staðsetningu runna og trjáa við lóðamörk. Fjallað er um þessi atriði í grein 7.2.2 í byggingarreglugerð. Þar kemur m.a. fram að:


 


  • Ekki má planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum aðliggjandi lóða en 4 metra.
  • Við staðsetningu trjáa á lóð sem ætlað er að vaxi frjáls skal taka tillit til skuggavarps á viðkomandi lóð og nágrannalóðum.
  • Sé trjám eða runnum plantað við lóðarmörk samliggjandi lóða skal hæð þeirra ekki verða meiri en 1,80 metrar, nema lóðarhafar beggja lóða séu sammála um annað.
  • Ef lóðarmörk liggja að götu, gangstíg eða opnu svæði má trjágróður ná meiri hæð, enda komi til samþykki veghaldara eða umráðaaðila viðkomandi svæðis.


 


Minnt er á að lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðarmarka. Íbúar eru hvattir til að huga að því sérstaklega við götur og gangstíga og klippa gróðurinn og stuðla þannig að auknu öryggi vegfarenda.


 


Trjágróður í dreifbýli getur skapað hættu


 


Rétt er að benda á að í dreifbýli er umhirða trjágróðurs mikilvægt öryggisatriði, sérstaklega í nánd við þjóðvegi. Tryggja þarf að trjágróður skyggi hvorki á sýn vegfarenda né skapi hættu missi ökumaður stjórn á ökutæki og fari út af vegi. Nýleg skýrsla rannsóknarnefndar umferðarslysa fjallar um banaslys í Eyjafirði þar sem trjágróður kom við sögu.


 


Nánari upplýsingar:


 


Byggingarreglugerð nr. 112/2012 (fjallað er um tré og runna á lóðum í grein 7.2.2): http://www.mannvirkjastofnun.is/library/Skrar/Byggingarsvid/Byggingarreglugerd/Uppf%C3%A6r%C3%B0%20byggingarregluger%C3%B0%20eftir%208.%20breytingu%20-%20%C3%81SS%20m.%20aoskr%C3%A1%2023.2.2019.pdf


 


Skýrsla Rannsóknarnefndar samgönguslysa um banaslys á Eyjafjarðarbraut: http://www.rnsa.is/media/4096/eyjafjardarbraut-2252017-ii.pdf


 


Fréttaskot Umhverfis-og skipulagssviðs nr. 11


Share: