Nú standa yfir framkvæmdir á Borgarbraut á milli Böðvarsgötu og Egilsgötu. Verið er að endurnýja fráveitulagnir, hitaveitu- og vatnslagnir ásamt því sem yfirborð götu og gangstíga verður endurnýjað. Verkið er á vegum Veitna ohf., Vegagerðarinnar, RARIK ohf. og Borgarbyggðar.
Byggðaráð Borgarbyggðar hefur samþykkt að útbúin verði tímabundin hjáleið yfir Kveldúlfsvöll og hluta Berugötu á meðan á verkinu stendur. Markmiðið með því er að draga úr umferðarþunga sem annars lægi allur um Böðvarsgötu, Þórólfsgötu, Sæunnargötu og Bjarnarbraut. Um er að ræða vandasama ákvörðun þar sem horft var til fjölmargra þátta en þar vega öryggismálin þyngst.
Umrædd hjáleið verður um sex metra breið og verður fjarlægð þegar framkvæmdum við 1. verkhluta lýkur, sem áætlað er að verði í byrjun október nk. Ljóst er að framkvæmdin mun valda skaða á góðri og fella þarf tré en reynt verður að lagfæra gróðurskemmdir eins fljótt og kostur er. Frágangur er í höndum framkvæmdaaðila og leggur byggðarráð áherslu á að hann verður unninn í samráði við sveitarfélagið.
Borgarbyggð harmar óþægindin sem þessar framkvæmdir hafa í för með sér en mun í samvinnu við framkvæmdaaðila knýja á um að hugað verði sérstaklega að öryggi íbúa og annarra vegfarenda. Sömuleiðis þarf að tryggja góðar merkingar á þjónustu í neðri bænum. Svo þurfum við öll að huga að umferð skólabarna í haust en vonandi dregst framkvæmdatími sem minnst inn á skólaárið. Við hvetjum ökumenn og aðra vegfarendur til að sýna sérstaka aðgætni.