Helstu upplýsingar um framkvæmdirnar á Borgarbrautinni

maí 24, 2023
Featured image for “Helstu upplýsingar um framkvæmdirnar á Borgarbrautinni”

Nú er malbikun á neðri hluta Borgarbrautar lokið. Í síðustu viku var íbúum tilkynnt um stöðu á framkvæmdum á Borgarbrautinni þar sem stóð til að hjáleiðinni um Berugötu yrði lokað 23. eða 24. maí og ný hjáleið færð yfir á Þorsteinsgötu/Skallagrímsgötu. Óhagfellt veðurfar síðustu daga gerði það að verkum að malbikun fór fram fáeinum dögum seinna en lagt var upp með í síðustu viku og því seinkar lokun á Berugötunni.

Ný hjáleið opnuð

Stefnt er að því að færa umferð yfir á Þorsteinsgötu/Skallagrímsgötu þriðjudaginn 30. maí nk. og hjáleið um Berugötu í kjölfarið lokað. Búið er að malbika frá gatnamótum við Egilsgötu og upp fyrir Skallagrímsgötu og er nú verið að klára viðbótafrágang svo hægt sé að hefja jarðvinnu við næsta hluta verksins.

Búið er að senda dreifimiða til þeirra íbúa sem verða fyrir mestu áhrifum af breytingum vegna þessa, bæði á íslensku og ensku. Auk þess verða merkingar aðlagaðar eins og við á.

Verkáætlun – næstu skref

Þegar nýja akstursleiðin opnar verður hafist handa við að grafa fyrir fráveitu og vatnsveitu frá Skallagrímsgötu og upp eftir Borgarbraut skv. framkvæmdaráætlun.

Íbúar við Skallagrímsgötu og Þorsteinsgötu verða óhjákvæmilega fyrir mestu ónæði af þessum breytingum sökum aukinnar umferðar. Eru íbúar beðnir um að sýna aðgát og virða 30 km hámarkshraða á götum innanbæjar.

Verkstaða og verklok

Með malbikun upp fyrir Skallagrímsgötu er þar með endurnýjun lagna og gatnagerð fyrir 1. hluta verksins lokið sem og rúmlega helmingi 2. hluta. Vinna við yfirborðsfrágang, þ.e. götulýsing og hellulögn gangstétta er nú komin af stað og verður sú vinna unnin samhliða áframhaldandi gatnagerð. Gert er ráð fyrir að verki verði að fullu lokið í haust 2023.

Íbúar eru beðnir velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

Framkvæmdaraðilar verkefnisins eru Veitur, RARIK, Vegagerðin og Borgarbyggð og er það Orri Jónsson hjá EFLU sem tekur við fyrirspurnum er varðar verkið. Netfangið hjá honum er orri.jons@efla.is.

 


Share: