Góð mæting á íbúafund

febrúar 14, 2018
Featured image for “Góð mæting á íbúafund”

Góð mæting á íbúafund um framtíðarstefnu Borgarbyggðar í íþróttum og tómstundum   Borgarbyggð stóð fyrir opnum samráðsfundi með aðildafélögum UMSB og öðrum áhugasömum íbúum um íþróttir og tómstundir í Borgarbyggð þriðjudaginn 13. febrúar sl. Lilja Björg Ágústsdóttir formaður stýrihóps um endurskoðun á stefnu Borgarbyggðar í íþrótta- og tómstundamálum hóf fundinn á því nefna að skoða þyrfti þá möguleika sem felast í þeim íþróttamannvirkjum sem eru í Borgarbyggð og koma auga á hvernig hægt sé að nýta þau sem best. Einnig hvernig hægt sé að virkja aðildarfélög innan UMSB sem og utan,  til þess að leggja sitt af mörkunum til að stuðla að fjölbreytni í íþróttaiðkun og tómstundum fyrir íbúa Borgarbyggðar á öllum aldri. Jakob Frímann Þorsteinsson, aðjunkt í íþróttum og tómstundum við Háskóla Íslands hélt fyrirlestur um mikilvægi stefnumótunar í íþróttum og tómstundum og að huga þyrfti að ólíkum þörfum íbúa. Markmið samráðsfundarins var að leita svara við því hvernig staðið verði að fjölbreyttum íþróttum og tómstundum fyrir íbúa Borgarbyggðar og heyra hvað gengur vel og hvað má bæta. Niðurstöður umræðna verða teknar saman og lagðar fyrir stýrihóp um endurskoðun á stefnu sveitarfélagsins í íþrótta- og tómstundamálum. Þær munu mynda þann grunn sem framtíðarstefna Borgarbyggðar í málaflokknum byggist á.  


Share: