Götur og vegir komu fremur illa undan vetri og því talsverð þörf á holufyllingum í götum. Í vikunni var meðal annars lagt nýtt malbik á Þórðargötu í Borgarnesi og áætlað er að fara í frekari gatnagerð á árinu á Borgarbrautinni, í Flatahverfi á Hvanneyri og á Varmalandi.
Götur hafa verið sópaðar í Borgarnesi og á Hvanneyri og talsvert hefur verið hreinsað af rusli. Grunnskólabörn hafa tekið til hendinni við að fegra umhverfi sitt og fjölmargir íbúar hafa verið að plokka að undanförnu. Hreinsunarátak er í gangi í þéttbýliskjörnum þar sem ekki er gámastöð, sem stendur út vikuna 25.- 29. apríl, þar sem íbúar geta skilað af sér mismunandi úrgangsflokkum.
Talsvert viðhald hefur verið á götulýsingu og þá hefur ýmsum smáverkum verið sinnt á leiksvæðum og skólalóðum s.s. lagfæringum á leiktækjum og öðru.
Á dögunum var auglýst eftir umsjónarmanni opinna svæða í áhaldahúsið og hefur sá einstaklingur hafið störf, en um er að ræða menntaðan garðyrkjumann. Þegar er búið að snyrta talsvert af trjám og runnum, og áfram verður unnið að viðhaldi og snyrtingu gróðurs og beða á næstu vikum ásamt öðrum vorverkum vítt og breitt um sveitarfélagið.
Minnt er á að skv. ákvæðum byggingarreglugerðar er lóðarhafa skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðamarka. Sé því ekki sinnt og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðamörk við götur, gangstíga eða opin svæði, er umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.
Íbúar eru hvattir til að senda inn ábendingar ef eitthvað þarf að lagfæra í nærumhverfinu, með ábendingahnappi á heimasíðu Borgarbyggðar.