Vopnaskak í Landnámssetri

september 8, 2009
Dr. William R. Short
Laugardaginn 12. september næstkomandi verður mikið um dýrðir í Landnámssetrinu. Víkingafélagið Rimmugýgur sýnir bardagalist, dr. William Short og Einar Kárason tala um vopnaburð fornmanna og fyrsta sýning haustsins á Stormum og styrjöldum verður um kvöldið.
Sýningar á bardagalist víkinga verða á flötinni við Landnámssetrið og hefjast klukkan 15.00 og 19.00. Rimmugýgur er íslenskt víkingafélag sem leggur stund á bardagalist með eftirlíkingum víkingavopna. Félagið er skipað ólíkum einstaklingum með mismunandi bakgrunn en áhuginn á menningu og bardagalist víkinga sameinar félagsmenn. Rimmugýgur dregur nafn sitt af exi Skarphéðins Njálssonar.
 
Klukkan 16.00 hefst á Sögulofti Landnámssetursins fyrirlestur dr. William R. Short um vopn og bardagatækni á víkingaöld.
William R. Short lauk doktorsnámi í vísindum frá tækniháskóla á Massachusetts Institute of Technology og vann hann um 30 ára skeið við rannsóknir á hljóði, hljómburði og heyrn. Hann söðlaði hins vegar um fyrir um það bil tíu árum hefur síðan beint kröftum sínum að rannsóknum á vopnum og bardagalist víkindaaldar. Nýverið birti hann niðurstöður sínar í bókinni Wiking Weapons and Combat Techniques.
 
Að loknum fyrirlestri dr. Short flytur Einar Kárason, rithöfundur, það sem hann kallar “óábyrga hugleiðingu” um vopn og vopnaburð á Sturlungaöld.
 
Allir eru velkomnir á fyrirlestra þeirra Williams og Einars á Söguloftinu á meðan húsrúm leyfir.
 
Klukkan 20.00 hefst leikhúsárið í Landnámssetrinu með sýningunni
Stormar & Styrjaldir í flutningi Einars Kárasonar. Efni sýningarinnar byggir á bókum Einars Óvinafagnaði og Ofsa en í þeim fjallar hann um átök á Sturlungaöld. Sýningin var frumsýnd síðastliðinn vetur og hefur notið mikilla vinsælda.
 
 

Share: