Vinnuskólinn komin á fullt

júní 15, 2006
Eins og vanalega á þessum tíma árs þarf að taka til hendinni í umhverfismálum og það hefur varla farið fram hjá neinum að nemendur vinnuskólans eru komnir á kreik að grunnskóla loknum og farnir að taka til hendinni og fegra umhverfið.
Skólinn var settur þriðjudaginn 6. júní í Óðali og hófst með því að farið var yfir reglur skólans og Ólafur Sigurðsson sem lengi starfaði í áhaldahúsi bæjarins fór yfir tilgang vinnu, verklag og annað það sem nemendur þurfa að hafa á hreinu áður en út á vinnumarkað er haldið.
Um 50 unglingar aðallega úr 8. og 9. bekk eru í skólanum að þessu sinni þar af eru tíu að vinna á Háskólasvæðinu í Bifröst í útibúi sem þar er starfandi. Nóg er af verkefnum og er nú verið að keppast við að snyrta gangstéttir og opin svæði. Áhersla er lögð á Skallagrímsgarð og að bærinn verði orðinn snyrtilegur fyrir þjóðhátíðardaginn og vilja unglingarnir skora á alla íbúa sveitarfélagsins að taka líka til hendinni í sumar á lóðum sínum og lóðarmörkum. Útlit sveitarfélagsins okkar er jú ekki annað en sú vinna sem við öll leggjum á okkur til að fegra híbýli, lóðir og umhverfi okkar.
Verkstjóri vinnuskólans er Sigurþór Kristjánsson og geta fyrirtæki og einstaklingar stutt starfið í vinnuskólanum með því að panta þjónustu unglingana hjá honum í síma 892-7970. ( Sjá nánari upplýsingar með því að smella á Sumar 2006 sem er hér til hægri á heimasíðunni ).
 
Flokksstjórar í vinnuskólanum í sumar eru þau Anna Margrét Ragnarsdóttir, Guðmundur Skúli Halldórsson, Sigríður Arnardóttir, Sigríður Dóra Sigurgeirsdóttir, Fannar Kristjánsson, Steinunn Pálsdóttir og Arndís Sigurðardóttir.
ij.
 
Hreinsað á Kveldúlfsvelli
Á Bifröst
 

Share: