Vinnuskólanum slitið

ágúst 3, 2007
Vinnuskóla Borgarbyggðar lauk með miklu húllumhæ á föstudaginn fyrir viku. Síðasta deginum var varið á golfvellinum á Hamri, en fjórir strákar úr vinnuskólanum hafa verið þar við störf í sumar. Þeir tóku að sér að skipuleggja ratleik, púttkeppni og fleira skemmtilegt á lokadeginum fyrir félaga sína úr vinnuskólanum.
Þó að mestum tíma unglinganna í vinnuskólanum hafi verið varið í að fegra og snyrta sveitarfélagið okkar þá var starfið einnig brotið upp, bæði með fræðslu og leik. Þannig var sjúkraþjálfari með þeim einn dag þegar þau unnu að stígagerð og fræddi þau um hvernig best er að beita líkamanum. Þá komu fulltrúar frá Ástráði, forvarnastarfi læknanema, og fræddu þau um kynlíf og sjúkdóma sem að því getur fylgt. Íþróttadagur var haldinn í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi og tókst hann mjög vel. Hin árlega vinnuskólaferð varð heldur endasleppt eins og frægt varð í fjölmiðlum landsins, en áður en ósköpin dundu yfir höfðu krakkarnir þó átt góðan dag í keilu og í tívolí.
Vinnuskólinn var starfandi í átta vikur, frá 4. júní til 27. júlí. Í ár voru óvenju fáir krakkar í vinnuskólanum og flest voru á fyrsta ári. Að sögn Sigurþórs Kristjánssonar verkstjóra skólans stóðu þau sig þó vel og eiga svo sannarlega hrós skilið fyrir framtak sitt í sumar. Er það von Borgarbyggðar að þau hafi haft bæði gagn og gaman af og að þau komi aftur í vinnuskólann næsta sumar.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við ýmis tækifæri þegar starfið í vinnuskólanum var brotið upp.
 

Share: